2007-02-03

Ljósleiðaravædd Landsbyggð.

Í þessum pistli langar mig að kíkja svolítið á samkeppni í fjarskiptaheiminum og til þess langar mig að nefna það þegar sæstrengurinn Cantat-3 var eini strengurinn til landsins. Á þessum tíma var Síminn það fyrirtæki sem önnur fyrirtæki þurftu að skipta við til að fá netsamband til útlanda. Eitt af þessum fyrirtækjum var Fjarski sem nú er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar. Þegar tengja átti net Fjarska við útlönd, þurfti að fá samband frá Reykjavík til Vestmannaeyja, þar sem tengjast á í sæstrenginn. Fjarski fékk tilboð í slíka tengingu frá Símanum upp á svo og svo margar milljónir á mánuði. Fjarski tók ekki tilboðinu en ákvað að leggja eigin streng og þegar strengurinn hafði verið lagður, hafði Síminn lækkað verð sitt um 50 % af því upprunalega.

Annað dæmi er af vestfjörðum. Snerpa hefur þjónað þessu svæði með þráðlausum tengingum, en nýlega kom Síminn þar og býður nú ADSL tengingar en ekki sama hraða og t.d. í Reykjavík. Þar fær fólk helminginn á fullu verði. Hólmvíkingar eru því að borga tvöfalt verð miðað við Reykvíkinga, fyrir sömu þjónustu frá Símanum.


Samkeppni er mikilvæg. Eini aðilinn sem býður ljósleiðaratengingar milli staða, er Síminn og er Snerpa að leigja þeirra línur á rándýru verði, þannig að ekki er hægt að auka bandbreidd til viðskiptavina.

Þeir rækta markaðinn á þessu svæði, en geta ekki boðið ADSL þjónustu vegna þess að eigandi símakerfisins

er Síminn og þar er verðið hátt. Hinsvegar er verðið annað þegar Síminn fór sjálfur að bjóða þessa þjónustu.


Þróunin á Vestfjörðum er hinsvegar á þann veg, að fólki fækkar og Síminn virðist vera einráður á þessum markaði. Gæði og verðlagning á netsamböndum eru eftir því. Sveitarfélög virðast hafa mjög veika samningsaðstöðu til að búa í haginn fyrir almenna samkeppni á þessum markaði.


Eitt af lykilatriðum sveitarfélaganna er sjálf aðstaðan: Það er ekkert gefið að hver sem er geti grafið og lagt ljósleiðara hvar sem er. Bæði er það truflandi fyrir starfsemi á svæðinu, kostnaðarsamt að ganga frá, og einnig þarf að fara varlega til að rjúfa ekki aðra kapla sem eru fyrir. Því er mikið betra að leggja rör sem draga má í svo marga ljósleiðara sem vera skal og hægt er að fjarlæga aftur án þess að nokkuð sjáist á frágangi. Samkeppnisaðili gæti því auðveldlega komist inn á markaðinn og það bætir gæði og þjónustu.


Ef tryggja á samkeppni á þessu svæði, samkeppni sem er íbúunum í hag, þurfa sveitarfélögin sjálf að ráða yfir rörum fyrir ljósleiðara á svæðinu. Þarmeð fá samkeppnisaðilar greiðan aðgang að því að leggja ljósleiðara um svæðið. Sveitarfélögin verða að setja öllum aðilum þau skilyrði að þeir leggi ljósleiðarakapalinn á eigin kostnað, greiði af honum tilskilin gjöld og leigu, og taki hann upp á eigin kostnað.



Engin ummæli: