2005-10-26

Um Ábyrgðartilfinningu Kvenna.

Í Tilefni kvennafrídagsins, heitir grein í Bryggjuspjalli í sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútveg, miðvikudag þann 26. okt 2005, er Hjörtur Gíslason hefur ritað. Að mínu mati, er þessi grein skemmtileg ádeila á hvernig vinnuveitendum hefur tekist að nýta ábyrgðartilfinningu kvenna endurgjaldslaust.

Í greininni lýsir hann hverning kynbundin mismunun vinnuveitanda raðaði fólki í ólík störf eftir kyni.
Konurnar stóðu við snyrtilínuna í einstaklingsbónus og keyrðu sig gjörsamlega út til að ná svipuðum launum og karlarnir sem röltu á milli vinnsluborðanna með stál og hníf eða vagn til að færa þeim fisk og taka frá þeim pönnurnar. Það var pakkað í gríð og erg í fimm pundin fyrir Ameríku. Roð og beinlaus ýsa og þorskur. Ekkert mátti útaf bregða. Konurnar urðu að halda uppi hraðanum og nýtingunni til að fá mannsæmandi laun og ábyrgðin var slík, að ef slæddist með eitt og eitt bein var sú sending vestur um haf verðfelld og konunum kennt um. Það var jafnvel hægt að sjá hver sökudólgurinn var. Karlarnir báru enga ábyrgð. Þeir fóru bara illa með fiskinn í móttökunni og rýrðu þannig gæði hráefnisins, en það bitnaði ekki á þeim. Þeir fengu eins og venjulega hærra kaup fyrir minni vinnu.

Ég þekki þetta sjálf frá unglingsárum mínum í fiskvinnslu og frá móður minni heitinni sem var ein af þessum konum. Fjölmargir íslendingar geta sagt sömu sögu.

Vinnuveitendur skipulögðu vinnuna þannig, að við vinnu í móttökunni og í frystingunni þurfti að nota töluvert afl, sem talið var ókvenlegt. Það hafði félagslegar afleiðingar fyrir þær konur sem tóku slík störf, bæði hvað varðar makaval og álit meðal annarra kvenna. Þær urðu einhverskonar Laxnesskar Sölku Völku valkyrjur sem stóðu utan fyrir fastmótaðar hugmyndir manna um hvað er kvenlegt. Karlmenn í kvenmansstörfum máttu gjalda bæði félagslega og fjárhagslega. Þeim var útskúfað félagslega úr félagsskap samverkakvenna sinna og einnig úr félagsskap samverkamanna sinna. Oft tókst þeim þó að vinna sér virðingu hinna en aldrei að fullu. Vinnuveitendur mismunuðu fólki eftir kynferði um aðgengi í störf og á meðan glumdi krafa kvenréttindahreyfingarinnar um sömu laun fyrir sömu störf. Skotið geigaði og nú 30 árum seinna er krafan enn hin sama.

Hvað með að byrja með að afmá áðurnefnda félagslega mismunun eftir kyni, og samtímis krefjast aðgang að störfum óháð kyni. Krafan um sömu laun fyrir sömu störf er svo sjálfsögð að hún er komin í lög og hana þarf ekki að nefna sérstaklega.

2005-10-25

Ráðning er launungamál.

Í gær var útifundur um meðal annars kynbundin launamun. Þar mættu um 50 þús. Manns. Sama dag, fékk ég email um að ég hefði ekki fengið starf sem ég sótti um. Ég sótti um í gegn um þekkt ráðningafyrirtæki sem upplýsti aldrei hvaða fyrirtæki væri um að ræða. Engar upplýsingar voru gefnar um málsmeðferð eða hverjir hefðu haft upplýsingar mínar undir höndum.

Mér finnst áhyggjuefni, að meðan stjórnvöld leggja áherslu á aðgengileika einstaklinga og fyrirtækja að persónuupplýsingum um einstaklinga, eru fyrirtæki í vaxandi mæli að fela sínar upplýsingar. Ég fæ líklega aldrei að vita hvaða fyrirtæki það var sem ég sótti um hjá.

Þegar fyrirtæki fara svo laumulega með ráðningar, er ómögulegt að ganga úr skugga um hvort hæfasta manneskjan hafi verið ráðin, eða hvort kynferði hafi verið afgerandi við ráðninguna.

Hér á eftir er tilkynning sem mér barst um starfið frá fyrirtækinu Mannafli / IMG:

Ágæti umsækjandi

Úrvinnslu umsókna í ofangreint starf er lokið. Að þessu sinni hefur verið ákveðið að ráða annan einstakling í starfið.

Forráðamenn fyrirtækisins hafa beðið mig um að koma á framfæri þakklæti fyrir umsókn þína og þann áhuga sem þú sýndir starfinu.

Við viljum gjarnan geyma umsókn þína áfram í þeirri von að annað sambærilegt starf bjóðist. Við hvetjum þig eindregið til að fylgjast með auglýstum störfum á heimasíðu okkar og sækja aftur um ef þú sérð starf sem vekur áhuga þinn og þú uppfyllir hæfniskröfur.

Óskir þú þess að umsókn þín sé ekki lengur í okkar vörslu þá vinsamlegast hafðu samband við okkur og við munum taka þig af skrá.

Með kveðju,

F.H. Helgu Jónsdóttur

María Jóhannsdóttir

2005-10-24

Hvað er það sem var að?

Síðan baráttufund kvenna 1975 eru 30 ár liðin og kynbundinn launamunur er enn til. Edda Björgvinsdóttir leikari spurði á baráttufundinum þeirri augljósu spurningu: Hvað er að?

Hvað getur valdið því að 30 ára barátta meirihluta landsmanna hefur litlu áorkað? Mér dettur í hug textinn Lorteland eftir Steffen Brandt í dönsku hljómsveitinni TV 2 (hér þýtt á íslensku)

Og aldrei nokkurntíman hafa svo margir,
verið jafn sammála um svo mikið.

Og sjaldan hafa svo fáir gert svo lítið
aldrei höfum við tekið svo stóra sjensa
til að bæta líf okkar
Og sjaldan hafa svo fáir haft jafn mikinn rétt
til að eyðileggja alt, fyrir svo mörgum.

Aldrei hafa svo margir sést svo lítið

og séð svo mikið af heimi sem enginn skilur
Sjaldan í sögunni hafa hinir flestu verið svo fáir,
og grætt svo mikið, gefið svo lítið
geispað svo hátt, hugsað svo lágt,
meðan þau hlógu
alla leið
niður í banka.

Valgerður Bjarnadóttir þóttist hafa svarið á reiðum höndum. Það var karlaveldið, sama svarið og gefið var fyrir 30 árum síðan. Í ljósi titils þessa pistils, væri áhugavert að fá að vita hvort hún ætlar að halda þessari skoðun sinni til streitu næstu 30 árin.

Amal Tamini hélt ræðu sem markar nýja stefnu í jafnréttisbaráttunni. Í staðinn fyrir að benda á sökudólga, benti hún á hvað væri að og möguleika til að bæta úr því. Það er kominn tími á stefnubreytingu í jafnréttisbaráttunni. Stéttabaráttan er dauð.


Launamisrétti vegna kynferðis.

Í dag er kvennafrídagurinn. Hugmyndin um að gefa konum frí kl 14:08 er óþyrmileg áminning um launamisrétti vegna kynferðis. Þessi áminning hittir algerlega í mark, gagnstætt fáránlegri auglýsingaherferð VR sem ég einnig hef skrifað um.

2005-10-20

Óvænt nærvera.

Hún sat og grúfði sig yfir vinnu sína og varð ekki mín vör fyrr en ég var hér um bil 3 metra frá henni. Hún lyfti höfðinu þreytulega og leit á mig og mér fannst svipbrigði hennar einhvernvegin álasa mér. Andlitið frekar venjulegt og aldur hennar um 30 ára. Hún hafði stuttklippt dökkt hár, sjal um herðarnar og bómullarskyrtu eða peysu. Litirnir voru gráir og brúnleitir.

Ég átti ekki von á neinum þarna um hálfníuleytið um kvöldið og sá hana svona útundanmér, og í undrun minni snéri ég höfði mínu í átt til hennar og sá að þarna var enginn. Öll ljós voru kveikt.

Ég er að ræsta nýja skrifstofu í afleysingum á þriðju hæð. Allt er innan við 20 ára gamalt þarna nema fundarpúlt eitt mikið sem greinilega á sér langa sögu. Hún sat stutt frá því. Þegar ég var búin að átta mig og jafna mig hélt ég áfram að ræsta eins og ekkert hefði í skorist. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég upplifi slíkt sem þetta.

Ég ákvað að leita uppi sögu þessa púlts, hvar það hefði staðið og hvaða fólk tengdist þvi. Þó að nærvera hennar hafði ekki verið óþægileg, rennur mér kalt vatn milli skinns og hörunds við tilhugsunina um þann möguleika, að ég fyndi gamla mynd af þessari konu eins og hún leit út í lifanda lífi.

2005-10-19

Hvort okkar er hitt kynið.

Í Kastljósinu (fallbeygt með eða án greinis) í gærkvöldi var meðal annars fjallað um unga konu sem hefur ótvíræð einkenni karmanns. Íslensk stjórnvöld hafa lengi vel þráast á móti þeirri staðreynd að kynferði og kyngervi eru ekki það sama. Á klósettum, í sundlaugum og í samtökum er fólk flokkað eftir kyngerfi og síða sorterað frá ef kynferði þess er ekki í samræmi við þetta. Á meða svokölluð jafnréttisbarátta er í algleymingi, þar sem VR stendur fyrir auglýsingaherferð undir slagorðunum ”Láttu ekki útlitið blekkja þig”, er talað um jafnan rétt kvenna og karla. Þegar talað er um að útrýma mismunun vegna kynferðis, þagna svokallaðir jafnréttispostular.

Hver og ein manneskja hefur hagsmuna að gæta vegna kyngerfis síns. Þessir hagsmunir eru að mestu leyti félagslegir en út frá félagslegum hagsmunum tengjast efnahagslegir hagsmunir, atvinnumöguleikar, menntun og lífsgæði.

Þessi unga kona lýsti aðferðum hennar til að gæta félagslegra hagsmuna sinna og hún nefndi meðal annars salerni sem aðskilja fólk eftir kyngerfi. Fram til þessa hefur fólki eins og henni verið meinaður aðgangur að slíkum salernum.

Ég er ekki hér að tala um að setja skuli að jöfnu, það sem ekki er jafnt. Ég tala hér um að útrýma mismunun vegna kynferðis. Ég tala hér um, að ekki megi setja hagsmuni hópsins hærra en einstaklingsins, rétt eins og ekki má setja hagsmuni eins einstaklings hærra en hagsmuni annarra einstaklinga hvort sem þeir mynda hóp eða ekki.

2005-10-17

Samfélag einstaklinga.

Andkommúnistar sjálfstæðisflokksins.

Hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins minntist, í ræðu sinni í gær, á einstaklingin og stillti einstaklingnum gegn þjóðfélaginu, með orðum sínum um að setja ætti þarfir einstaklingsins framar þörfum þjóðfélagsins. Slíkur hugsunarháttur samrýmist vel andfélagslegri hyggju, sem lítur á þjóðfélagið sem aðskotadýr. Í samanburði við kommúnisman þar sem þjóðfélagið var hin viðurkennda heild en þarfir einstaklingsins í besta falli hundsaðar en í versta falli var einstaklingunum fórnað á altari heildarinnar.

Séu orð formannsins skoðuð í þessu ljósi, sést að þau eru reyndar öfugur kommúnismi. Sjálfstæðismenn eru þarmeð sammála kommúnistum um, andstæða hagsmuni þjóðfélags og einstaklings.

Margrét Þatcher gekk reyndar svo langt að hún reyndi að afmá þjóðfélagið með kenningu sinni um að þjóðfélagið væri ekki til það væri einungis einstaklingar.

Þetta er svona svipað og að staðhæfa að skógar séu ekki til, aðeins tré. En á sama hátt og tréin mynda skóginn, mynda einstaklingarnir samfélagið. Það eru hagsmunir einstaklinga sem mynda hagsmuni samfélagsins. Hagsmunir einstaklinga eru til dæmis að halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu og skattheimtu sem tryggir fjárhagslegan grundvöll hennar á ábyrgan hátt.

Þegar vissir hagsmunahópar samfélagsins ráðast gegn öðrum hagsmunahópum samfélagsins, með skerðingu heilbrigðisþjónustu og skattalækkunum, er verið að blása í glæður vantrausts, og reiði, sem kallað getur á pólítiskar hefndaraðgerðir.

Skattalækkanir eru ofarlega á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og þarmeð að veikja fjárhagslegan grundvöll almennrar þjónustu. Til að breiða yfir þessa stefnu, lýsir Sjálfstæðisflokkurinn yfir, að ekki skuli afnema bensínstyrk öryrkja. Það er augljóst að ríkisútgjöld vegna bensínstyrks öryrkja eru ekki mikil og einungis brot af þeim skattalækkunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni.

¤º°`°º¤ø,¸¸,ø¤º°`°º¤ø,¸¸,ø¤º°`°º¤ø,¸¸,ø

Góð vinkona mín, Anna Kristjánsdóttir, sem alltaf reynist vinum sínum vel, skemmti sér konunglega á Árhsátíð Orkuveitunnar á laugardag. Kalt var í veðri, og vindur í minna lagi, er hún sá um að krónurnar rúlluðu í kassa Orkuveitunnar henni til ómældrar gleði. Í glettni lét hún hafa eftir sér að það hefði mátt vera svolítið kaldara. Lítill vafi er á, að Orkuveitan á góðan að í henni.

2005-10-14

Einu sinni var Kastljós.

Ég man þá tíð að fréttum var bunað út úr Útvarpi, Sjónvarpi og dagblöðum og allir þessir fjölmiðlar höfðu fréttir sínar frá Reuter og APN. Það var eins og blaðamennska gengi út á að afrita fréttaskeyti orðrétt og án nokkurrar gagnrýni.
Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu að fréttirnar afspegluðu ekki þann veruleika sem við lifðum í. Sérstaklega var það áróðurinn í sambandi við herstöðina og Víetnamstríðið og síðar fréttir af fjöldamorðum rauðu khmeranna undir stjórn hins fasístiska einræðisherra Poul Potts í Kambodíu.

Ég gleymi aldrei hvernig fjölmiðlar nærri þögðu það í hel að hinn vestrænni heimur ákvað að Poul Pott væri réttmætur stjórnandi Kambodíu þegar hið kommúnistiska Víetnam ákvað að binda endi á valdatíma hans. Þetta var sagt í stuttri frétt rétt sisona eins og keyrt hefði verið yfir enn eina kindina á vesturlandsveginum. Engin fréttaskýring, ekkert.
Þetta var fyrir tíma vefsins og ekkert hægt að skoða útfyrir landssteinana. Mér fannst fréttaflutningur þess tíma eins og súrrealístisk stæling á skáldsögu George Orwells er nefnist 1984. Íslendingar höfðu þá akkúrat unnið þorskastríð gegn bretum og þjóðrembingurinn í hámarki. Allur fréttaflutningur af því var áróðursstríð sem stjórnað var af Ólafi Jóhannessyni og landhelgisgæslunni. Frjáls, óháður og gagnrýininn fréttaflutningur var nánast ekki til þegar um stjórnmál var að ræða.

Síðan byrju menn að gagnrýna og rýna í fréttir og koma með fréttaskýringar og með þessari nýju átt, létti þokunni, og skyggnið batnaði til muna. Einn helsti fréttaskýringaþátturinn sem ég man eftir hét Kastljós. Það er svolítið undarlegt að nú árið 2005 sé að byrja göngu sína algerlega nýr þáttur sem heitir Kastljós. Enn undarlegra er að þættir er heita Kastljósið séu sagðir hafa hafið göngu sína árið 2000. Ég man eftir þáttum er hétu nafnorðinu Kastljós í nefnifalli án ákveðins greinis. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að nafnorðið kastljós sé sama orðið og kastljósið; að munurinn sé einungis ákveðinn greinir. Það sem ég vill koma á framfæri hér er, að þættir er nefndust Kastljós í einhverri beygingarmynd og með eða án ákveðins greinis hafa verið sendir síðan fyrrnefndri þoku létti yfir fréttaflutningi íslendinga.

Ég gleymi aldrei fréttaskýringarþættinum Kastljósinu með kynningarstefi beint af plötu hljómsveitarinnar SKY, don dererererontdedonte don dererererere ront de donte. Síðan birtist geisli frá ljóskastara sem lék um skjáinn meðan kynningarstefið var spilað. Þetta var líklega eitt af því djarfara sem Ríkisútvarpið Sjónvarp hafði fundið uppá á níunda áratug tuttugustu aldarinnar.

Þessir þættir báru fréttirnar kurteislega á borð svo hver og einn gæti fengið sér eftir þörfum. Þetta var eitthvað algerlega nýtt í fréttaflutningi Sjónvarpsins því fram að þessum tíma voru fréttir bornar fram eins og hafragrautur og lýsi sem maður gleypti en vildi sem minnst vita af.

Það er óneitanlega svolítið Orwellskt að segja að nýlega hafi hafið göngu sína sjónvarpsþáttur er nefnist því frumlega nafni Kastljós í einhverju falli og með eða án ákveðins greinis. Þar er fréttaflutningur ekki eins og hafragrautur og lýsi. Nei hér er það margréttað ruslfæði. Fyrst kók og ein með öllu, svo franskar, síðan neyðarlegur hamborgari, og svo ís sem þú missir í gólfið því þú hefur bara tvær hendur og einn munn.

Fyrir alla þá er hafa aðgang að norrænum sjónvarpsstöðvum vill ég eindregið benda á dönsku sjónvarpsstöðina DR1 og frábæran fréttaskýringaþátt er nefnist Horisont eða Sjóndeildarhringur. Þó að DV rembist eins og rjúpan við staurinn að velta sér í forinni í samkeppni við danska Ekstrabladet þá hefur íslensk blaðamennska lítið að hæla sér af. Ég er viss um að íslenskir blaðamenn séu fullfærir um að keppa við erlenda starfsbræður sína, en þegar stjórnendur fjölmiðlanna láta meðalmennskuna ráða, eiga íslenskir fjölmiðlar ekki upp á alþjóðlegt pallborð.

2005-10-13

Hápúnktur Dagsins.

Eftir langvarandi dvöl mína erlendis, var mig farið að hungra eftir dökku rúgbrauði, góðu gamaldags dökku seyddu rúgbrauði. Nú tel ég mig snilling í að baka færeyskt rúgbrauð sem er herramannsmatur með góðri síld, en þegar dökka rúgbrauðið vantar, er kvöldverðarborðið ekki alveg veisluborð. Þennan morgunn valdi útvarpið að hreyta í hlustendur sína uppskrift að dökku rúgbrauði. Ég tel það hinsvegar ekki mér samboðið að láta trufla mig í skyrinu og lýsinu til að pára niður einhverja vafasama uppskrift sem ég hef ekki smakkað. Ónei ég skyldi bara klára minn morgunmat í ró og næði, og síðan finna góða rúgbrauðsuppskrift á netinu.

Google valdi hinsvegar að benda mér á, að maður nefndur Sverrir Páll hefur einhverntíma minnst á rúgbrauð í vefdagbók sinni en uppskriftina fann ég enga þegar ég fór að leita. Hinsvegar fann ég gullkorn á vefi þessa manns sem ég þekki alls ekki að öðru leyti. Hann er menntaskólakennari við Menntaskólann á Akureyri og lætur sig varða menntamál, málefni ungs fólks og málefni norðurlands.

Sérstaklega vakti athygli mína umfjöllun hans á Gleðigöngunni (Gay Pride). Á meðan sumir nota málið sem svipu eða refsivönd og aðrir beita pennanum sem sverði, nær lýsing hans að snerta innsæi mitt og sú upplifun gerir þetta að hápúnkti dagsins (já Laxnesska er viðeigandi hér).

Einnig hefur hann nokkrar skemmtilegar athugasemdir við KEA málið. En það snýst um uppsögn starfsmanns af þeirri ástæðu að hann ákvað að nýta sér lögbundinn rétt sinn til fæðingarorlofs.

En rúgbrauðsuppskriftin? Koma dagar, koma ráð.

2005-10-10

Þúsund milljón króna Don Kíkóti.

Fyrir fáeinum mínútum síðan var ég að horfa á heimildarmynd frá BBC um glæpi Súdanstjórnar gegn mannkyni. Kínverjar, sem hafa neitunarvald í Öryggisráðinu, hafa viðskiptahagsmuna að gæta þar eð stór hluti olíuviðskipta þeirra er við súdan. Samkvæmt heimildarmyndinni, hótuðu kínverjar að beita neitunarvaldi sínu þegar hin einstöku ríki kusu um tillögu um að beita viðskiptabanni á Súdan. Á meðan alvarlegasti glæpur gegn mannkyninu, síðan fjöldamorðin í Rwanda, er framinn, segir fulltrúi kínversku fasistastjórnarinnar:

Business is Business.

Nú eru ekki mörg ár síðan Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra lét kínversku fasistastjórnina segja sér fyrir verkum að fremja pólítiskar ofsóknir á hendur saklausu fólki af þeirri ástæðu einni að þau voru meðlimir í samtökum er nefnast Falun Gong. Nú er sá hinn sami orðinn forsætisráðherra í hinu lýðfrjálsa Íslandi. Samtímis er talað um að nú skuli Ísland fá aðild að fyrrnefndu Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Ætla má að aðild að Öryggisráðinu hafi tilgang, þar á meðal að þjóna hagsmunum Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Þeirri spurningu er þó ósvarað, hvort tilgangurinn sé að ganga í ríkjagengi sem stendur saman um sameiginlega hagsmuni, eða hvort Ísland ætli eitt sér að frelsa kúgaða hópa undan harðstjórum og fasistum og virða kínversk, rússnesk og bandarísk neitunarvöld að vettugi.

Mannréttindabrot, þjóðarmorð, og glæpir gegn mannkyninu virðast vera nýtt í áróðursherferð fyrir slíkri aðild. Raunveruleikinn er bara allt annar. Virðist mér þó að slík rök, beri vott um veruleikaskyn á borð við Don Kíkóta. En nefndur Don Kíkóti sá ekki mun á vindmyllum og óvinum sínum og barðist við vindmyllur af miklum krafti.

Þegar um er að ræða baráttu gegn mannréttindabrotum, fjöldamorðum og þjóðarmorðum, er mikilvægt að gera slíkt af heilum hug en ekki geðklofa eins og stefna Bandríkjanna er í þessum efnum, þar sem mannréttindabrot eru gagnrýnd þegar slíkt hentar Bandaríkjunum, en vilja ekki styðja Mannréttindadómstólinn þar sem hann myndi draga bandaríkjamenn fyrir dóm vegna brota á mannréttindum. Það er til dæmis alþekkt að bandaríkjamenn beita mannréttindabrotum eins og pyndingum í alræmdum fangelsum sínum á svæðum sem mannréttindasamningar ná ekki til.

Nú á að gera út íslenskan Don Kíkóta fyrir þúsund milljónir íslenskra króna, til að berja á óvinum mannkyns. Það er spá mín að barátta hans mun verða gagnlausari en hins upprunalega, því honum tókst þó altént að rífa einhverjar myllur.

Stuðningsmenn aðildar öryggisráðs munu aldrei viðurkenna, að tilgangurinn með aðildinni er að komast í gengi ríkja sem þjóna eigin hagsmunum eftir einkunarorðinu:

Viðskipti eru viðskipti.

Þannig gæti aðild að öryggisráðinu orðið til þess að Ísland yrði enn eitt ríkið sem situr í lömuðu Öryggisráði, meðan mannréttindabrotin, fjöldamorðin og þjóðarmorðin eru framin fyrir framan nefið á okkur.

Dyggur alþjóða stuðningur við Mannréttindadómstólinn myndi hafa víðtæk áhrif um allann heim, og ákæra á hendur ábyrgra aðila í Súdan, myndi bjarga fjölmörgum mannslífum. Hinsvegar tel ég að alltof seint sé að ákæra fyrrverandi utanríkisráðherra fyrir aðild að óréttmætri fangelsun Falun Gong meðlima, en aldrei skal ég fyrirgefa honum það.

2005-10-02

Það var eineygð einhyrnd fljúgandi fjólublá mannæta.

It was a one eyed, one horned flying purple people eater, ...


Gæði fréttaflutnings er nýlega kominn í sviðsljósið með tilkomu Lögreglurannsóknar og ákæru á hendur Baugs. Siðferði fjölmiðla er einnig komið í sviðsljósið með birtingu persónulegra upplýsinga sem heyra undir einkalíf, í helstu fjölmiðlum landsins.


Fram til þessa hafa gæði fréttaflugnings verið tilviljunarkennd. Siðferði það sem lá til grundvallar fréttaflutningsins, byggðist á, að láta helst þá verða fyrir skotum sem sízt gátu varið sig eða svarað í sömu mynt.


Sem dæmi má nefna DV (gjammar þegar það ætti að þegja) íslensku útgáfuna af Danske Ekstrabladet (kæfter op når det burde holde kæft). DV virðist vera að sérhæfa sig sem nútíma gapastokkur, fyrir ólánsmenn og konur sem brotið hafa gegn óskrifuðum hegningarlögum ritstjórnar DV. Einnig hefur DV séð sóma sinn í að vinna sem einfaldur gapastokkur fyrir fólk sem dómstólarnir hafa blessað með náðugu réttlæti sínu.


Ýmsar gagnrýnar raddir hafa verið frammi um að DV reyni að maka krókinn á óförum annarra. Sannleikurinn er hinsvegar sá að DV hefur tekið á sig hið vanþakkláta hlutverk að leiða fólk í allann sannleikann, en það er vitað mál að sannleikurinn er illa séður.


Sannleikurinn um Hverfisgötumorðingjann Sigurð Frey, er enn í fersku minni. Í viðleitni sinni til að birta meiri sannleik, voru birtar heilsíðufyrirsagnir um morðið og heilar forsíðumyndir og baksíðumyndir og opnumyndir af honum. Reiði og hefndarþorsti lesenda blaðsins fékk útrás við að lesa blaðið á sama hátt og þegar fólk barði, hrækti á og misþyrmdi þeim er lentu í gapastokknum hér áður. Móðir morðingjans fékk sömu meðferð, en náði þvímiður að verja sig að einhverju leyti.


Svo snúið sé aftur að gæðum fréttaflutnings, er sérstaklega áhugavert hvernig Fréttablaðið hefur reynt að afvegaleiða umræðuna um Lögreglurannsóknina og ákæruna á hendur Baugi. Þegar héraðsdómur hafði vísað ákærunni frá dómsmeðferð í heild sinni, kom hvert þrumuskotið á fætur öðru frá Fréttablaðinu. Fyrst var það samsæri svo var málið pólitískt svo var það Davíð Oddsson sem hélt í taumana og þegar hið frjálsa og flokksóháða Morgunblað byrjaði að verja sig og sína flokksmenn var Styrmir, ritstjóri Morgunblaðsins, hluti af samsærinu. Þessi svokallaða fréttamennska var síðan krydduð með kitlandi frásögnum af Jónínu Ben. og hennar tilhugalífi. Þetta er einfaldlega kölluð kryddsíld eða rauða síldin eftir síldinni sem notuð er erlendis til að draga athygli sporhunda frá einni slóð og fá þá yfir á aðra slóð sem hentar eiganda síldarinnar betur.


Einnig hefur það verið áhugavert hvernig fjölmiðlum hefur tekist að fjalla um svokallaða sakborninga eins og þeir væru sekari en t.d. þeir sem ákærðu þá. Það er eins og fjölmiðlarnir hafi gleymt, að líta skal á sérhvern sem saklausan þar til hann hefur verið dæmdur.


Að síðustu má ekki gleyma siðferðilegri ábyrgð fjölmiðla gagnvart almenningi, til að birta ekki villandi eða rangar upplýsingar svosem fyrirsögnina á þessari grein.

2005-10-01

Allt of lítið vitað um athyglissýki.

WHO hin heimsþekkta heilbrigðisstofnun World Health Organisation stendur sem steinrunnin gagnvart vaxandi faraldri athyglissýki. Haft er eftir framkvæmdastjóra stofnunarinnar að nú sé unnið að skráningu einkenna eða hvort um heilkenni geti verið að ræða.

Við höfðum skráð þetta sem heilkenni sem einangrast við ákveðinn og afmarkaðan hóp sjúklinga en nú bendir allt til að þetta sé bráðsmitandi. Slíkt bendir til að um bakteríu geti verið að ræða.segir framkvæmdastjórinn.

Hann vill hinsvegar ekki gera athugasemdir við að innan fyrir síðustu vikur hafa greinst faraldrar í öllum helstu stórborgum heims. Breska leyniþjónustan MI5 uprætti nýlega hóp hryðjuverkakvenna sem hefur á stefnuskrá sinni að smita sem flesta af þessari alvarlegu sýki.

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazera hefur birt myndbönd þar sem meintir Al-Kaída meðlimir hóta árásum með Írökskum efnavopnum og plágum sem muni lama vesturveldin og NATO.

Reiði Guðs mun refsa ykkur. Guð er mikill. var boðskapur Al-Kaída.
Breskir fjölmiðlar hafa bent á yfirvofandi hættu á hryðjuverkum og benda á faraldra af athyglissýki í evrópskum borgum en þessu hefur breska leyniþjónustan vísað algerlega á bug.

Heilbrigðisyfirvöld í evrópskum löndum hafa hingað til stanðið ráðþrota gagnvart faraldrinum en fundin hefur verið leið til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.

Stofnaður hefur verið stuðningshópur sjúklinga, til kynningar á sjúkdómnum og til að kynna forvarnarstarf í samvinnu við almannavarnir. Hér á landi hafa almannavarnir hvatt fólk sem telur sig hafa einkenni athyglissýki, að fara að ráðum heilbrigðisyfirvalda og skrifa af sem mestum krafti um allt og ekkert.