2007-02-17

Transgender Hópur á Íslandi.

Einu sinni fyrir langa löngu í Danmörku voru samtök er nefndust Fi Pi Epsilon. Þessir þrír bókstafir gríska stafrófsins minna á einhverja bandaríska menntaskólaklíku eða háskólaklíku. En bókstafirnir voru einnig skammstöfun fyrir Freedom of Personal Expression í merkingunni Frelsi til Persónutjáningar eða Persónutjáningarfrelsi. Þetta voru samtök fyrir aðallega karlmenn sem klæddust kvenfötum. Nýir meðlimir voru einungis teknir inn í samtökin eftir viðtöl við vissa háttsetta meðlimi. Sérstaklega tók ég eftir einum meðlimi en hún hafði verið glæsilegur karlmaður í Danska Flughernum en ákvað að gerast heimavinnandi húsfaðir þarsem eiginkona hans hafði háar tekjur. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar gekk Michel í kvenfötum þegar það varðaði við lög. Michel og fleiri höfðu verið handteknir fyrir þá sök eina að líta út eins og konur. Það stigma sem skapaðist með lögreglulögum síðustu aldar er enn við lýði í dag. Tilvera okkar og fræðsla um þessi málefni, hefur mikil áhrif í rétta átt.


Þetta stigma er þess valdandi að fólk á erfitt með að taka á flóknum kyngerfum á eðlilegan hátt. Einmitt fólk sem er undir hælnum á þessu stigma (stigmatized) getur átt enn erfiðara með að bregðast við kyngerfum annarra og sérstaklega ef þau eru stigmatized. Þessi félagslegi þáttur er þess valdandi í dag og var þess valdandi að meðlimir í FPE vildu alls ekki fá samkynhneigða inn í sín samtök og þau sem ætluðu í raun fá leiðréttingu á kyni sínu, máttu alls ekki gefa neitt slíkt í skyn, því annars yrði þeim sparkað úr FPE.


Önnur samtök höfðu svipaða stefnu. Samtökin Tiresias sem voru samtök fólks sem vildi leiðréttingu á kyni sínu, vildu hvorki sjá homma. lesbíur, transgender, eða aðra stigmamerkta minnihlutahópa.


Það var um 1993 eða 1994 að ég ásamt fleirum kom að samtökunum Tiresias í dauðateygjunum. Við byrjuðum á að athuga hvort hægt væri að lífga samtökin við. Við komumst fljótt að því að galli væri á lögum félagsins, þannig að þó að stjórn félagsins hefði sett sig sjálfa frá völdum með því að boða ekki til aðalfundar sem henni þó var skylt skv. félagslögum, var ekki hægt að boða til fundar og skipa nýja stjórn.


Það var farið að athuga með að stofna nýtt félag og nafn á það. Nokkrar tilraunir voru gerðar en þær runnu út í sandinn árin 1994 og 1995. Á þessum tíma kynntist ég fólki sem hafði nokkur kynni af hvernig danska kerfið virkaði gagnvart fólki sem þarf leiðréttingu á kyni.


Gitte Poulsen var ein af þessu fólki. Hún hafði ranghugmyndir um lífið og tilveruna var og töluvert sérstök. Samt sem áður hafði henni tekist að fá leiðréttingu á nafni sínu á mörgum stöðum í kerfinu. Hún vildi óð og uppvæg sýna mér allt sem hún hafði gert á þessu sviði og þau bréf sem hún skrifaði til yfirvalda. Dugnaður hennar og áræði fékk mig til að hugsa um hvað aðrir væru að gera. Fólk sem þekkti hana lítið sem ekki neitt, hæddist að henni og gerði lítið úr henni. Þetta sama fólk hafði ekki hugmynd um að henni hafði tekist að gera hluti sem þeim hafði ekki einusinni dottið í hug. Það var hún sem sýndi mér hvað er hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi, jafnvel þau sem ganga ekki heil til skógar.


Hún sýndi mér bréf sín til yfirvalda og ég byrjaði að bera þau saman við lög og reglugerðir landsins. Þarna byrjaði ég að lesa lögfræði. Ári seinna þótti mér nokkuð ljóst að brotið væri gróflega á stjórnsýslululögum og mannréttindum þessara hópa hvað varðar aðgengi að réttarkerfinu.


Innan þessara hópa var hræðsla og andstaða jafnvel meðal menntafólks, gegn beinskeyttri og lagalegri réttindabaráttu. Afstaðan var sú að við ættum að vera þæg annars yrði okkur refsað með því að skerða enn frekar þau fáu réttindi sem við höfðum. Ég átti erfitt með að leyna fyrirlitningu minni á þeim heigulshætti sem þessi hugsun lýsti og fyrir það eignaðist ég óvini sem ég hefði heldur viljað starfa með.


Árið 1997 stofnuðum við samtök í Kaupmannahöfn, sem dóu stuttu seinna.


Samtímis þessu hafði ég verið ansi ötul við að kvarta til Umboðsmanns danska Þingsins, bæði á eigin vegum og einnig á annarra vegum. Fram til þessa höfðu verið háværar raddir sem sögðu að vandamál okkar væru engin, þau byrjuðu að skoða málið og mörg þeirra snérust og skiptu um skoðun á því. Ekki ein einasta af kvörtunum okkar bar árangur, en þær voru allar semdar til umfjöllunar hjá danska Dómsmálaráðuneytinu. Þegar þeir höfðu haft fjölmörg mál til umfjöllunar, hættu þeir að segja að vandamálið væri ekki til. Þá kom nýtt hljóð í strokkinn. Nú var vandamálið til en það var ekki Dómsmálaráðuneytisins að leysa það, heldur vísuðu þeir til réttarlæknaráðsins (sem í raun er er yfir dönskum dómstólum en hefur þó ekki ábyrgð á dómum)

og einnig til danska Þingsins.


Þann 9. ágúst 2002 tókst okkur að stofna félagið trans-danmark.dk eftir mikla undirbúningsvinnu mánuðina á undan. Jafnvel innan þessa félags, skorti skilning á málefnum okkar. Ég fór í áróðursherferð innan félagsins þar sem ég sagði meðal annars frá því hvernig slæm réttarstaða mín kemur ekki bara niður á okkur heldur á börnunum okkar.


Sagan var að dóttir mín hafði sparað vasapeningana sína saman svo hún gæti keypt sér farsíma. Mikil var tilhlökkunin þegar við gengum inn í verslun Orange í Álaborg. Við keyptum borguðum og skrifuðum undir. Allt í einu kom það í ljós að þar sem hún var ekki fjárráða varð ég að skrifa undir samninginn. Það var allt í lagi, ég setti nafnið mitt og danska kennitölu og þeir sögðu að það tæki eingöngu einn daga að tengja símann.


Síðan liðu einhverjir dagar og Orange segir að síminn verði tengdur bráðlega. Eftir um 10 daga hafði ég misst þolinmæðina, og byrjaði að grafast fyrir um hversvegna síminn væri enn ótengdur og hvenær þeir ætluðu að klára það. Í ljós kom að þrátt fyrir að dönsk lög bönnuðu símafélögum að skrá áskrifendur með kennitölu, höfðu þeir notað kennitöluna til að slá upp í þjóðskránni sem sýndi skírnarnafnið mitt. Ég hafði hinsvegar skrifað nýja nafnið mitt. Þeir neituðu að tengja síma dóttur minnar sem hún hafði borgað meg eigin fé, vegna þess að nafni mínu hafði ekki verið breytt í þjóðskrá. Þetta þótti mér algerlega fáránlegt og þegar fólk heyrði þessa sögu, rann upp fyrir þeim að nafnið okkar er ekki bara eitthvað sem skráð er í rykugar gagnahirslur.


Maðurinn minn hafði oftar en einu sinni og oftar en tvisvar beðið mig um að giftast sér og langaði að hafa það á sama degi og foreldrar hans giftu sig en það var 02.02.1952. Hann langaði að giftast 02.02.2002 en við höfðum sett upp hringa klukkan 00:00 á gamlárskvðld/nýjársnótt áramótin 199/2000. Þar sem ég hafði ekki fengið leiðréttingu á kyni og nafni í þjóðskrá, hefði aftur komið upp sú staða að ekki væri hægt að fylla út pappíra með mínu nafni réttu. Ef prestur og yfirvöld hefðu samþykkt að nota núverandi nafn mitt, hefði orðið af brúðkaupinu, en okkur hefið verið gert að skilja samkvæmt danskri lagahefð þegar formleg leiðrétting á mínu kyni og nafni næði fram að ganga. Á þennann hátt var okkur í raun meinað að giftast.


Á meðan ég stóð í þessari baráttu, var margt fólk sem bara lúffaði og lét mótmælalaust fara svona með sig. Þetta fólk byrjaði að hugsa sig um. Þau hættu að láta valta yfir sig, mótmælalaust.


Um það leyti sem félagið trans-danmark.dk var að undirbúa tillögu að breytingu á lögum um mannanöfn, fékk ég tilboð um vinnu í Færeyjum þar sem maðurinn minn er færeyingur. Ég fór og yfirgaf alla þessa baráttu til að gera við tölvur í meðal annars færeyskum fiskiskipum. Þar á eftir fengum við okkur aligæsir og andarunga og þetta var stórkostlegur tími með mikilli náttúru, fátækt, fuglum, bakstur, sláturgerð, heyskap, sauðfé, og áhyggjur.


Nú er ég aftur á mölina í mestri nánd og firrð. Aftur er fólk sem gjarnan vill styðja okkur, en við fræðum þau ekki nóg um hver staða okkar er. Enn einu sinni lúffum við í staðinn fyrir að rétta úr bakinu og standa með okkur sjálfum. Þetta er alls ekki auðvelt, en við erum ekki ein. Við erum aldrei ein.

Engin ummæli: