Í dag föstudag, lagðist ég í þann aumingjaskap að tilkynna mig veika í vinnunni. En auðvitað dauðsá ég eftir því. Mér hundleiðist heima hjá mér því ég get ekki bakað eða eldað eða skrifað á tölvu. Ofan á það bættist að eini vaskurinn sem ég hef aðgang að á sameiginlega baðinu var stíflaður. Það gengur ekki að vera veik heima og geta ekki þvegið sér eða þvegið upp matarílát sín.
Fram með vítissóda og hellti í niðurfallið, sannfærð um að þetta rándýra eitur myndi losa mig við stífluna rétt eins og það gengur að fjarlægja bletti í sjónvarpsauglýsingum. Síðan í rúmið að tilbiðja veikindin.
Þegar ég var orðin hressari og hafði lokið við að borða morgunmat, ýtti mín ýtti pirringnum til hliðar og ákvað að illu væri best aflokið og ákvað að ráðast á vaskinn af mikilli ákveðni, Þvílíkt ógeð!! Hreinsaði öll rörin í nýja fína vaskafatinu mínu, raða öllu saman aftur og prófa. Stíflan gaf sig ekki því hún var inni í veggnum, og nú langaði mig mikið frekar að fara að vinna heldur en að eiga svona veikindafrí.
Hringdi í húseigandann og hún lofaði að senda pípara. Ég heyrði hinsvegar ekki eitt einasta píp.
Eftir að hafa lesið blöð dagsins í dag og í gær tvisvar og hringt í vini og vinkonur fannst mér að ég hlyti að geta gert eina tilraun í viðbót við stífluna. Um meters langur stálþráður virtist hentugur til að renna inn í rörið og reyna að fjarlægja stífluna. Út kom sandur og allskonar viðbjóður beint ofan í fína vaskafatið mitt. Setja saman aftur og prófa, í þetta skipti láku rörin en stíflan var þéttingsföst. Þetta var um kvöldmatarleytið.
Ein vinkona mín kíkti við hjá mér og við ræddum hennar málefni. Síðan skutumst við út í búð þar sem ég keypti svokallaðan drullusokk. Þegar ég kom heim aftur, bólaði ekkert á pípara. Í mínum höndum réðist drullusokkurinn með offorsi á blásaklausann vaskinn. Gekk svolítið illa í fyrstu því þetta er smávaskur og því sullaðist nokkuð út á gólf. Svo að troða tusku í yfirfallsgatið. Fimm mínútum seinna hafði stíflan gefið sig.
Þá þurfti bara að þrífa.
Ég var rétt að ljúka við að þrífa þegar pólverjinn sem býr í herberginu skáhallt á móti mér, birtist með bakpoka. Hann benti á bakpokann sinn og sagði “work” á ensku. Síðan fór hann og kíkti á vaskinn, skrúfaði frá, og leit á nýja drullusokkinn minn, lyfti brúnum og sagði eitthvað á pólsku og kannski einhver ensk orð inni á milli. Ég skal taka það fram að þessi maður er ákaflega geðþekkur og vingjarnlegur og það er erfitt að vera með fýlusvip þegar hann er nálægt. Hann opnaði bakpokann og tók upp úr honum forláta drullusokk kyrfilega merktum eiganda sínum. Þó að ég skilji ekki orð í pósku þá skildi ég orðin “boss” og “work” og “one day”. Yfirmaður hans virðist náðarsamlegast hafa ákveðið að lána honum þettta hátækniviðundur í einungis einn dag, en merkt drullusokkinn kyrfilega svo hann rataði nú aftur til eiganda síns.
Seinna um kvöldið heyrðust háværar raddir ungs fólks sem var að skemmta sér hinum megin við þunnann vegginn. Reynsla mín af slíkum skemmtunum hafði kennt mér að það verður stöðug umferð af fólki frá hinum ganginum yfir á okkar gang til að nota salernið okkar megin. Okkar salerni er í lagi og ég sé um að halda því hreinu og í lagi, og sem þökk fyrir það þarf að halda mér vakandi og pirraðri helst alla nóttina.
Ég sá fram á erfiða og svefnlausa nótt, þar sem ég hefði engan frið í mínu eigin rúmi. Þá gafst ég upp og mætti í vinnuna um miðnætti. Það er þó allavega friður þar.
Ég er búin að upphugsa aðferð til að halda dyrunum að okkar gangi læstum jafnvel fyrir þeim sem hafa lykil. Þá er spurning hvort ég vilji taka áhættuna á að læsa mig úti. :)
.-. .-.
/'v'\ /'v'\
(/ \) (/ \)
======="="=='=='="="===-----
Megi Ó-Frjálslyndi flokkurinn eignast fleiri drullusokka og læsa sig úti af alþingi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli