2005-11-18

Lækningar á kynfötlun.

Í fréttablaðinu í dag 17. nov 2005 skrifar Óttar Guðmundsson geðlæknir um gagnrýni vegna forræðishyggju og íhaldssemi heilbrigðisyfirvalda varðandi leiðréttingar á kyni.

Við sem höfum gengið gegnum slíkt ferli vitum að þetta er eins og að losna við fötlun. Auðvitað er engin lækning fullkomin sérhver bati er réttlætanlegur. Sem dæmi má nefna að hægt er að auka lífsgæði verulega hjá margskonar sjúklingum þó ekki sé hægt að ná fram algjöru heilbrigði.

Kjarninn í röksemdafærslu Óttars er, að þegar ekki er útlit fyrir að ná fram fullkomnu heilbrigði, þá skuli ekkert gera fyrir sjúklinginn.

Hann heldur því ranglega fram, að hér á landi sé farið eftir sömu reglum og í nærliggjandi löndum. Óttar er einn af þeim mönnum í heilbrigðiskerfinu sem hafa álíka hlutverk og vörðurinn í skáldsögunni Réttarhöldin (Der Prozess) eftir Franz Kafka. Sagan er af manni er þurfti að komast milli staða en á leið sinni kom hann að hliði og vörðurinn neitaði honum um leyfi til að komast gegn um það. Verðinum tókst að tefja mannin í nokkra daga á þennan hátt en hleypti honum í gegn einungis til að stöðva hann við næsta hlið. Svona gekk sagan.

Það sem Óttar og hans líkar eru að gera er að grípa inn í líf fólks og stöðva það á lífsleið sinni. Því meir og lengur sem hann stöðvar það, því meir grípur hann inn í líf þeirra sem hann að réttu ætti að vera að hjálpa.

Í greininni hefur Óttar slíkar leiðréttingaraðgerðir til skýjanna eins og þetta vær einhver lífselexír fyrir útvalda eins og hann segir:

[Við leiðréttingaraðgerðir á kyni] verða svo ótrúlega miklag breytingar á lífi og högum einnar manneskju [og því] verður að hafa mjög ákveðnar reglur.

Raunin er hinsvegar sú, að hægt er að hjálpa sjúklingum með einföldum aðgerðum án þess að grípa inn í líf þeirra. Staðreyndin er hinsvegar sú að íslensk heilbrigðisyfirvöld vilja ekki gera neitt fyrir sjúklinga með kynáttunarvanda nema hægt sé að ná fram fullkomnu heilbrigði.

2005-11-17

Afstæðishyggja.

Svona titill skapar væntingu lesenda um heimspekilega meðferð á þessu hugtaki. Tilgangur þessara skrifa er hinsvegar að kynna þessa hyggju, sem tröllríður stórum hluta stjórnmálaumræðu.

Samkvæmt þessari hyggju, teljast ríkisvald Burma og ríkisvald Stóra Bretlands jafn rétthá, þau eru jafningjar. Ríkisvald Burma virðir yfirleitt ekki mannréttindi, en á hinn bóginn virðir Stóra Bretland yfirleitt mannréttindi.

Það er einmitt jafnaðarhugsjón sem er er aðalinntak þessarar hyggju. Afstæðishyggjan lítur algerlega framhjá, að ójöfnuður getur hlotist af, að setja að jöfnu það sem ekki er jafnt.

Sem dæmi má nefna að samkvæmt afstæðishyggjunni hefur ríkisvald Burma jafnan rétt til að ráða innanríkismálum sínum og hvert annað ríki. Afstæðishyggjan tekur ekki tillit mannréttinda eða brotum á alþjóðlegum sáttmálum, öll ríkisvöld eru jafningjar.

Grundvöllur afstæðishyggjunnar.

Þegar afstæðishyggjan er skoðuð niður í kjölinn koma í ljós nokkur grundvallaratriði afstæðishyggjunnar. Samkvæmt henni hefur samfélagið engan innri strúktúr og manneskjan ekkert innra eðli.

Afstæðishyggjan er því grundvöllur hugmynda um að stjórna og viðhalda strúktur samfélagsins.

Hið innra eðli mannsinsins er ekki til samkvæmt afstæðishyggjunni og því þarf sífellt að viðhalda móral og gildum mannsins. Dæmigerð afstæðishyggja felst í einum texta Biblíunnar er hljómar nokkurnvegin á þennan hátt:

Þér eruð salt jarðarinnar, ef saltið dofnar, með hverju á þá að salta það.

Hugmyndin í þessari setningu er að efnið salt geti misst eiginleika sinn sem salt. Sannleikurinn er hinsvegar sá, að salt getur ekki mist eginleika sinn því selta er eðli salts. Á sama hátt hefur maðurinn innbygt mannlegt eðli. Tilraunir til að stjórna mannlegu eðli eru því dæmdar til að mistakast.

2005-11-15

Framsóknarmannréttindi?

Í Stjórnarskrá hins stolta Lýðveldis Íslands eru innrituð mannréttindi samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Þessi mannréttindi kveða meðal annars á um réttinn til lífs, öryggis, húsaskjóls og matar.

Svo hefur þetta stolta lýðveldi stofnanir til að þessi réttindi í von um að einnig megi gefa fólki mannsæmandi tilveru.

Ein af þessum stofnunum heitir Tryggingastofnun Ríkisins. Nafnið eitt hljómar eins og loforð um öryggi, félagslegt öryggi, eins og tryggingafyrirtæki. Nú eru fleiri tryggingafyrirtæki hér til lands og ef manni líkar ekki þjónustan þar, fer maður til annars tryggingafyrirtækis í von um að fá bætta þjónustu.

Það sem er svo sniðugt við þessa stofnun er, að allir eru alltaf að borga tryggingar sínar þar, allir sem eru skattskyldir í þessu landi. Hvað gerir maður svo ef manni líkar ekki þjónustan? Jú jú, maður getur akkúrat ekkert gert, því TR gegnir því hlutverki að tryggja félagslegt öryggi allra sem á Íslandi búa.

Maður er nefndur Valur sem ég er stolt af að mega kalla vin minn. Hann hefur ólæknandi sjúkdóm er nefnist MND. Vegna þessa sjúkdóms er hann 100% öryrki og því er það siðferðileg skylda þjóðfélagsins að tryggja félagslegt öryggi hans bæði hvað varðar félagslegt öryggi, húsaskjól og mat.

Nú gerist það að TR ákveður að Valur hafi enga þörf fyrir fyrir húsaskjól, mat og félagslegt öryggi í 3 mánuði. Þetta er vægast sagt merkileg ákvörðun! Afleiðingarnar af henni eru að TR kippir stoðum undan lífi Vals. Það er svartur húmor að segja að hann geti nú þegar pantað sér líkkistu og jarðarfarardag. Kannski væri við hæfi að mótmæla þessu athæfi með sviðssettri jarðarför lífs Vals.

Eitthvað verður að gera!

2005-11-13

Peningamyllan.


Það er ekkert gaman að fást við fjármál en hver getur lifað án þeirra. Nú þarf ég að rýna í rykið undir koddanum mínum, reikna komandi afborganir af námslánum, reikna skattgreiðslur, gera greiðslumat og ætilegan mat, þeas. eiga fyrir mat.

Þetta er ekki erfitt í sjálfusér, ég þarf bara að gera þetta, en ég er svo þreytt.

2005-11-12

Bernskan.

Hef nú heila viku dáðst að heilsíðuauglýsingu úr blaðinu. Auglýsingin er frá www.verndumbernskuna.is og er 3. heilræði til foreldra og uppalenda barna.

Viðurkennum Barnið eins og það er.


Þú veist ekki hvernig er að vera ég.

Ég vil að þér finnist ég vera fín eins og ég er.

Myndin og textinn segja að hvert barn sé einstakt og fullkomið eins og það er. Það þarf ekki að skamma börn og siða þau til, því þau eru mjög dugleg að læra að umgangast umhverfi sitt.

Ef til eru bókmenntaverðlaun fyrir auglýsingar, þá er þetta auglýsingin sem ætti að fá þau.

2005-11-11

Um Beina Markaðssetningu.

Ég hef unnið við beina markaðssetningu í ýmsum verkefnum, allt saman góðgerðarstarfsemi. Allt gott um það að segja, þetta voru brýn verkefni og nauðsynlegt að vekja athygli landans á þeim og samtímis afla þeim fjár.

Kíkjum á hvernig þetta er unnið. Hagstofan og samvinnufyrirtæki hennar sem ég hef skrifað um áður, framleiða lista með persónuupplýsingum sem seld eru einkafyrirtækjum, félögum og samtökum sem hafa tök á að gjalda uppsett verð. Það segir sig sjálft, að slíkir listar eru notaðir í fleiri ár áður en farið er út í að fjárfesta í nýjum listum. Á þeim tíma sem líður milli uppfærslu á listunum, hafa margar manneskjur látið setja merki í þjóðskrá, sem bannar notkun á persónuupplýsingum í tilgangi beinnar markaðssetningar. Samt sem áður er haldið áfram að hringja í þetta fólk, því listarnir eru óuppfærðir.

Hægt að gagnrýna löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið fyrir að gefa ekki einstaklingum kost á að verja sig gegn sífelldum símhringingum til stuðnings brýnustu málefnum dagsins.

Ég hef áður gagnrýnt framkvæmdavaldið en kíkjum á löggjafarvaldið og götin í löggjöfinni. Tökum sem dæmi athugasemdina sem stendur neðst á vefsíðu símaskrárinnar.

Ath.

X í dálknum "Símasala" þýðir að rétthafi númersins hefur óskað eftir að vera ekki ónáðaður af aðilum sem stunda beina markaðssetningu. Samkvæmt 46. grein fjarskiptalaga nr. 81/2003 er áskrifanda í fjarskiptaþjónustu heimilt að krefjast þess að upplýsingar skráðar um hann megi ekki nota í tilgangi beinnar markaðssetningar "[...] Símnotendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt."

Orðalagið “heimilt að krefjast” gefur enga tryggingu gegn misnotkun á skráðum upplýsingum. Það skyldar heldur ekki aðila til að fjarlægja þær upplýsingar sem sett hefur verið merki við í þjóðskrá. Með þessu orðalagi laganna, er heimilt að hringja í áskrifanda sem eru á óuppfærðum listum, þósvo að áskrifandinn hafi nýlega látið Hagstofu vita að slíkt megi ekki. Þetta er nú eitt gatið.

Orðalagið “skulu virða merkingu í símaskrá” skyldar ekki hlutaðeigandi aðila til að líta í símaskránna til að athuga hvort þessi eða hinn áskrifandinn séu merktir með X í símaskránni.

Merking gegn notkun á persónuupplýsingum í þessum tilgangi ætti að vera sjálfgefin við skráningu nýrra einstaklinga í þjóðskrá. Síðan geta einstaklingarnir sjálfir ákveðið að leyfa slíka notkun á upplýsingum sínum.

Brot á þessu ætti að varða við sekt.

Vandamálið er hinsvegar mikið stærra en bara þetta. Fyrirtæki með stóran viðskiptamannahóp er talið eiga upplýsingar um viðskiptavini sína. Ég tel að svo sé ekki. Fyrirtæki af þessu tagi eru Síminn, Og Vodafone, Orkuveitan, Landsvirkjun, Bankar og Sparisjóðir, Landsspítalinn, Íslensk Erfðagreining, Ættfræðigagnagrunnar og fleiri.

Það er eðli persónuupplýsinga, að það er persónan sjálf sem á þær. Þegar persónan stofnar til viðskifta við annann aðila veitir hún honum sjálvirka heimild til að nota persónuupplýsingar í þeim tilgangi að tryggja viðskiptin. Þegar viðskiptin eru yfirstaðin, fellur heimildin sjálfvirkt úr gildi og hefur aðilinn ekki lengur heimild til að nota persónuupplýsingarnar. Þetta er mjög svipað og heimild til að nota hugbúnað. Td. Byggir Microsoft veldið á sölu á heimildum til að nota hugbúnað. Hugbúnaður er ekki söluvara sem slíkur, heldur fylgir hann bara með heimildinni til að nota hann.

2005-11-10

Að kaupa eða kaupa ekki ...

Það ræðst af vísitölum sem eru náskyldar verðbólgu og eru háðar ansi flóknu samspili eldsneytisverðs, launahækkana og bla bla bla. Byrjun þessa bloggs var eins og variant við eitt frægasta leikrit Shakespeare en samviskulaus raunveruleikinn tróð skáldskapinn undir fótum.

Jæja hvað um það, það sem ég ætlaði að segja með þessu er, að mig vantar íbúð. En ég vill ekki kaupa meðan íbúðaverðið er svona hátt. Jú sjáið til, dæmið er svona: mig langar í íbúð sem samkvæmt fasteignamati kostar á bilinu 7 til 9 millj, segjum 8 millj. Slík íbúð er seld á 12,5 milljónir króna. Nú jæja ég gæti látið mig hafa það en hvað með lánin, ég á bara nokkrar krónur.

Það eru lánin sem eru raunverulegi skíthællinn í þessum húsnæðiskaupaleik. Ef ég er svo dugleg að ég geti borgað lánin á 20 árum þá slepp ég með að borga um 20 milljónir fyrir lánið. Þetta eru vextir, verðtrygging og fleira. En þetta er eingöngu ef verðbólgan er mjög lág eða undir 4 %.

Hvað gerist ef verðbólgan fer upp úr öllu valdi eins og Íslandsbanki og aðrir bankar spá. Spáin er um 9% verðbólga. Það merkir að þá þarf ég að borga 130 milljónir fyrir að fá sama lán.

Í dag kl 9:00 ætlar Hagstofan að birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir þennan mánuð. Spá bankanna var 0,1% fyrir nóvember 2005. Óskiljanlegt að ég skuli vera svo spennt fyrir svo leiðinlegri tölu.

Held ég vitni í lagið; svo skal böl bæta, eftir Megas og Tolla:

Launþegin hnígur niður lafmóður með ægilegan sting
& Lánskjaravísitalan hverfur út við sjóndeildarhring.
& ástandið í póllandi fer hríðversnandi dag frá degi.
Það dylst þeim ekki sem hér eru við hungurmörk svo ég held ég bara þegi.
Þú flettir mogganum og ég sé að það er sannað,
Að svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.


Er ekki einhver sem man þetta betur en ég?

2005-11-09

Sérstæðar heimsóknir á síðuna.

Ein af þeim síðum sem hafa tengst síðunni minni er http://tesalonica.blogspot.com/. Þessi síða hefur alveg sérstaklega listrænar myndir en er eingöngu á spænskri tungu.Ein af myndum þessarar síðu gæti kallast Kindin Einar eftir samnefndu lagi hljómsveitarinnar Hjálmar.

Önnur mynd sem er einstök eru nunnurnar á barnum.

Þessar nunnur eru algerlega siðsamlega klæddar og stólarnir lýsa miklu listrænu hugmyndaflugi og góðu verklagi.


Frelsi til að velja fornafn.

Evrópuráðstefna um kyngerfi. 1. þáttur.

Flest okkar ganga út frá því sem sjálfsögðuðum hlut, að hafa fornafn í samræmi við kyngervi okkar. Þó er nokkuð um tilfelli þar sem stjórnvöld meina fólki að samræma fornafn og kyngervi. Nýjasta dæmið er ung stúlka úr Keflavík. Eins og íslensk lög eru í dag hefur hún engan möguleika á að fá nafnið Vala eða neitta annað kvenmannsnafn fyrr en kynskiptiaðgerð hennar er lokið. Slík aðstaða er með öllu óþolandi.


Eitt erlent dæmi er um Gwen Araujo (F. 24. febrúar, 1985 , D. 4. október 2002) sem var myrt á hrottalegan hátt árið 2002 aðeins 17. ára gömul. Móðir hennar sótti um sérstakt leyfi til að breyta nafni hennar eftir látt hennar, sem áður hafði verið Edward, í Gwen. Það sem hún gat ekki fengið meðan hún lifði gat hún fengið þegar hún var látin.

Annað erlent dæmi er hin 15 ára gamla Tesia Samara sem framdi sjálfsmorð vegna eineltis og árása á hana í skóla hennar.

Við sem erum komin lifandi í gegnum þetta erfiða tímabil sem unglingsárin eru, vitum mætavel hversu mikið álag þetta er. Yfirvöld gera fólki lífið ennþá erfiðara með því að neyða það til að ganga undir nafni sem samrýmist ekki kyngerfi þess.

Evrópuráðstefna um kyngerfi hefur sett þetta málefni á dagskrá.

Í raun eru reglugerðir og lög um fornöfn mjög ólík eftir löndum og órökrétt. Lögin eru að hluta til af menningarlegum ástæðum og að hluta til af stjórnsýslulegum ástæðum og eru í andsögn við Evrópska Mannréttindasáttmálann.

Evrópuráðstefnan hefur meðal annars ályktað að vinna þarf að álitsgerð um hvernig hægt er ryðja þeim hindrunum úr vegi sem standa í vegi fyrir frelsi til að velja fornafn.

Evrópuráðstefnan setti á stofn vinnuhóp í þessum tilgangi.

2005-11-08

Átt þú nafnið þitt, eða er það ríkiseign?

Á meðan einkavæðingin fer eins og eldur í sinu um eignir ríkisins, eru raunverulegar persónur í vörslu ríkisins. Frelsi fyrirtækja hefur aldrei verið meira til að fela upphæðir og efnisatriði samninga. Samtímis þessu setur ríkið persónufrelsinu skorður með lagaákvæðum um takmarkanir á rétti til að breyta nafni sínu. Ennfremur er hver einstaklingur skyldaður með lagaákvæðum að skrá sig í þjóðskrá með nafni, heimilisfangi, kennitölu og símanúmeri. Innanríkisráðherra ráðstafar þessum eignum fólksins í landinu í gegn um Hagstofu . Ráðherrann hefur ákveðið að viss fyrirtæki geti selt þessar eignir fólksins, meðal annars með beina markaðssetningu fyrir augum.

Þessi fyrirtæki eru meðal annarra: Greiningahúsið ehf , Markvisst ehf , Markhópar ehf , Skýrr hf .

Það sem er áhugavert hér er, að nafnið þitt er selt fyrirtækjum sem vilja hagnast á viðskiptum við þig. Hvað færð þú fyrir þessa þjóðnýtingu á nafni þínu?

Jú þú færð heilan helling af áreiti sem þú hefðir helst viljað verið án! Þegar þú situr við kvöldverðarborðið með fjölskyldunni, þegar þú ert með gesti, þegar þú ert í stórri verslunarmiðstöð, er hringt í þig þar sem þú ert beðin um að styðja og kaupa þetta eða hitt.

Fyrst er fólk haft að fífli með fyrrnefndri þjóðnýtingu einstaklingsupplýsinga og síðan er fólk haft að féþúfu. Ráðherra ber ábyrgð á þessu.

2005-11-07

Meira um úngar stúlkur.

Fyrir nokkrum vikum glumdi sjónvarpsauglýsing í eyrum mér sem ég gleymi seint.

Í þjóðfélagi þar sem allir vilja vera eins og kvikmyndastjörnur, inniheldur auglýsingatextinn ”Glamúrgellan Vala” þann boðskap, að þar sé komin persóna sem er að minnsta kosti eins og kvikmyndastjarna ef ekki meir. Auglýsingatextinn var hinsvegar ”Glamúrgellan Valur”. Andstæður kynsins í orðunum, Glamúrgellan Valur, fær staðhæfinguna um glamúrgelluna til að detta á gólfið. Á þennan hátt fella höfundar auglýsingarinnar hugmyndina um Glamúr og gellu í gólfið.

Ef höfundar auglýsingarinnar hefðu haft réttmæti og sanngirni að leiðarljósi hefðu þeir gert sér ljóst, að þó að Vala eigi við kynáttunarvanda að stríða, hefur hún sömu drauma og þrár og aðrar stelpur á hennar aldri. Alveg eins og aðrar stelpur á hennar aldri, er hún að gera tilraunir með föt, liti og förðun. Þetta er nokkuð sem flestar konur þekkja sem nauðsynlegan hluta af þroska þeirra; að læra að þekkja líkama sinn og andlit. Að gera þetta að staðhæfingu um glamúrgellu er út í hött. Ég hef ekki lesið það blað sem þessi auglýsing var fyrir, en ég vil óhikað staðhæfa að Vala hafi verið svikin með þessari auglýsingu.

Eins og íslensk lög eru í dag hefur hún engan möguleika á að fá nafnið Vala.