2005-10-26

Um Ábyrgðartilfinningu Kvenna.

Í Tilefni kvennafrídagsins, heitir grein í Bryggjuspjalli í sérblaði Morgunblaðsins um sjávarútveg, miðvikudag þann 26. okt 2005, er Hjörtur Gíslason hefur ritað. Að mínu mati, er þessi grein skemmtileg ádeila á hvernig vinnuveitendum hefur tekist að nýta ábyrgðartilfinningu kvenna endurgjaldslaust.

Í greininni lýsir hann hverning kynbundin mismunun vinnuveitanda raðaði fólki í ólík störf eftir kyni.
Konurnar stóðu við snyrtilínuna í einstaklingsbónus og keyrðu sig gjörsamlega út til að ná svipuðum launum og karlarnir sem röltu á milli vinnsluborðanna með stál og hníf eða vagn til að færa þeim fisk og taka frá þeim pönnurnar. Það var pakkað í gríð og erg í fimm pundin fyrir Ameríku. Roð og beinlaus ýsa og þorskur. Ekkert mátti útaf bregða. Konurnar urðu að halda uppi hraðanum og nýtingunni til að fá mannsæmandi laun og ábyrgðin var slík, að ef slæddist með eitt og eitt bein var sú sending vestur um haf verðfelld og konunum kennt um. Það var jafnvel hægt að sjá hver sökudólgurinn var. Karlarnir báru enga ábyrgð. Þeir fóru bara illa með fiskinn í móttökunni og rýrðu þannig gæði hráefnisins, en það bitnaði ekki á þeim. Þeir fengu eins og venjulega hærra kaup fyrir minni vinnu.

Ég þekki þetta sjálf frá unglingsárum mínum í fiskvinnslu og frá móður minni heitinni sem var ein af þessum konum. Fjölmargir íslendingar geta sagt sömu sögu.

Vinnuveitendur skipulögðu vinnuna þannig, að við vinnu í móttökunni og í frystingunni þurfti að nota töluvert afl, sem talið var ókvenlegt. Það hafði félagslegar afleiðingar fyrir þær konur sem tóku slík störf, bæði hvað varðar makaval og álit meðal annarra kvenna. Þær urðu einhverskonar Laxnesskar Sölku Völku valkyrjur sem stóðu utan fyrir fastmótaðar hugmyndir manna um hvað er kvenlegt. Karlmenn í kvenmansstörfum máttu gjalda bæði félagslega og fjárhagslega. Þeim var útskúfað félagslega úr félagsskap samverkakvenna sinna og einnig úr félagsskap samverkamanna sinna. Oft tókst þeim þó að vinna sér virðingu hinna en aldrei að fullu. Vinnuveitendur mismunuðu fólki eftir kynferði um aðgengi í störf og á meðan glumdi krafa kvenréttindahreyfingarinnar um sömu laun fyrir sömu störf. Skotið geigaði og nú 30 árum seinna er krafan enn hin sama.

Hvað með að byrja með að afmá áðurnefnda félagslega mismunun eftir kyni, og samtímis krefjast aðgang að störfum óháð kyni. Krafan um sömu laun fyrir sömu störf er svo sjálfsögð að hún er komin í lög og hana þarf ekki að nefna sérstaklega.

Engin ummæli: