2005-10-20

Óvænt nærvera.

Hún sat og grúfði sig yfir vinnu sína og varð ekki mín vör fyrr en ég var hér um bil 3 metra frá henni. Hún lyfti höfðinu þreytulega og leit á mig og mér fannst svipbrigði hennar einhvernvegin álasa mér. Andlitið frekar venjulegt og aldur hennar um 30 ára. Hún hafði stuttklippt dökkt hár, sjal um herðarnar og bómullarskyrtu eða peysu. Litirnir voru gráir og brúnleitir.

Ég átti ekki von á neinum þarna um hálfníuleytið um kvöldið og sá hana svona útundanmér, og í undrun minni snéri ég höfði mínu í átt til hennar og sá að þarna var enginn. Öll ljós voru kveikt.

Ég er að ræsta nýja skrifstofu í afleysingum á þriðju hæð. Allt er innan við 20 ára gamalt þarna nema fundarpúlt eitt mikið sem greinilega á sér langa sögu. Hún sat stutt frá því. Þegar ég var búin að átta mig og jafna mig hélt ég áfram að ræsta eins og ekkert hefði í skorist. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég upplifi slíkt sem þetta.

Ég ákvað að leita uppi sögu þessa púlts, hvar það hefði staðið og hvaða fólk tengdist þvi. Þó að nærvera hennar hafði ekki verið óþægileg, rennur mér kalt vatn milli skinns og hörunds við tilhugsunina um þann möguleika, að ég fyndi gamla mynd af þessari konu eins og hún leit út í lifanda lífi.

Engin ummæli: