Ég man þá tíð að fréttum var bunað út úr Útvarpi, Sjónvarpi og dagblöðum og allir þessir fjölmiðlar höfðu fréttir sínar frá Reuter og APN. Það var eins og blaðamennska gengi út á að afrita fréttaskeyti orðrétt og án nokkurrar gagnrýni.
Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu að fréttirnar afspegluðu ekki þann veruleika sem við lifðum í. Sérstaklega var það áróðurinn í sambandi við herstöðina og Víetnamstríðið og síðar fréttir af fjöldamorðum rauðu khmeranna undir stjórn hins fasístiska einræðisherra Poul Potts í Kambodíu.
Ég gleymi aldrei hvernig fjölmiðlar nærri þögðu það í hel að hinn vestrænni heimur ákvað að Poul Pott væri réttmætur stjórnandi Kambodíu þegar hið kommúnistiska Víetnam ákvað að binda endi á valdatíma hans. Þetta var sagt í stuttri frétt rétt sisona eins og keyrt hefði verið yfir enn eina kindina á vesturlandsveginum. Engin fréttaskýring, ekkert.
Þetta var fyrir tíma vefsins og ekkert hægt að skoða útfyrir landssteinana. Mér fannst fréttaflutningur þess tíma eins og súrrealístisk stæling á skáldsögu George Orwells er nefnist 1984. Íslendingar höfðu þá akkúrat unnið þorskastríð gegn bretum og þjóðrembingurinn í hámarki. Allur fréttaflutningur af því var áróðursstríð sem stjórnað var af Ólafi Jóhannessyni og landhelgisgæslunni. Frjáls, óháður og gagnrýininn fréttaflutningur var nánast ekki til þegar um stjórnmál var að ræða.
Síðan byrju menn að gagnrýna og rýna í fréttir og koma með fréttaskýringar og með þessari nýju átt, létti þokunni, og skyggnið batnaði til muna. Einn helsti fréttaskýringaþátturinn sem ég man eftir hét Kastljós. Það er svolítið undarlegt að nú árið 2005 sé að byrja göngu sína algerlega nýr þáttur sem heitir Kastljós. Enn undarlegra er að þættir er heita Kastljósið séu sagðir hafa hafið göngu sína árið 2000. Ég man eftir þáttum er hétu nafnorðinu Kastljós í nefnifalli án ákveðins greinis. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að nafnorðið kastljós sé sama orðið og kastljósið; að munurinn sé einungis ákveðinn greinir. Það sem ég vill koma á framfæri hér er, að þættir er nefndust Kastljós í einhverri beygingarmynd og með eða án ákveðins greinis hafa verið sendir síðan fyrrnefndri þoku létti yfir fréttaflutningi íslendinga.
Ég gleymi aldrei fréttaskýringarþættinum Kastljósinu með kynningarstefi beint af plötu hljómsveitarinnar SKY, don dererererontdedonte don dererererere ront de donte. Síðan birtist geisli frá ljóskastara sem lék um skjáinn meðan kynningarstefið var spilað. Þetta var líklega eitt af því djarfara sem Ríkisútvarpið Sjónvarp hafði fundið uppá á níunda áratug tuttugustu aldarinnar.
Þessir þættir báru fréttirnar kurteislega á borð svo hver og einn gæti fengið sér eftir þörfum. Þetta var eitthvað algerlega nýtt í fréttaflutningi Sjónvarpsins því fram að þessum tíma voru fréttir bornar fram eins og hafragrautur og lýsi sem maður gleypti en vildi sem minnst vita af.
Það er óneitanlega svolítið Orwellskt að segja að nýlega hafi hafið göngu sína sjónvarpsþáttur er nefnist því frumlega nafni Kastljós í einhverju falli og með eða án ákveðins greinis. Þar er fréttaflutningur ekki eins og hafragrautur og lýsi. Nei hér er það margréttað ruslfæði. Fyrst kók og ein með öllu, svo franskar, síðan neyðarlegur hamborgari, og svo ís sem þú missir í gólfið því þú hefur bara tvær hendur og einn munn.
Fyrir alla þá er hafa aðgang að norrænum sjónvarpsstöðvum vill ég eindregið benda á dönsku sjónvarpsstöðina DR1 og frábæran fréttaskýringaþátt er nefnist Horisont eða Sjóndeildarhringur. Þó að DV rembist eins og rjúpan við staurinn að velta sér í forinni í samkeppni við danska Ekstrabladet þá hefur íslensk blaðamennska lítið að hæla sér af. Ég er viss um að íslenskir blaðamenn séu fullfærir um að keppa við erlenda starfsbræður sína, en þegar stjórnendur fjölmiðlanna láta meðalmennskuna ráða, eiga íslenskir fjölmiðlar ekki upp á alþjóðlegt pallborð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli