It was a one eyed, one horned flying purple people eater, ...
Gæði fréttaflutnings er nýlega kominn í sviðsljósið með tilkomu Lögreglurannsóknar og ákæru á hendur Baugs. Siðferði fjölmiðla er einnig komið í sviðsljósið með birtingu persónulegra upplýsinga sem heyra undir einkalíf, í helstu fjölmiðlum landsins.
Fram til þessa hafa gæði fréttaflugnings verið tilviljunarkennd. Siðferði það sem lá til grundvallar fréttaflutningsins, byggðist á, að láta helst þá verða fyrir skotum sem sízt gátu varið sig eða svarað í sömu mynt.
Sem dæmi má nefna DV (gjammar þegar það ætti að þegja) íslensku útgáfuna af Danske Ekstrabladet (kæfter op når det burde holde kæft). DV virðist vera að sérhæfa sig sem nútíma gapastokkur, fyrir ólánsmenn og konur sem brotið hafa gegn óskrifuðum hegningarlögum ritstjórnar DV. Einnig hefur DV séð sóma sinn í að vinna sem einfaldur gapastokkur fyrir fólk sem dómstólarnir hafa blessað með náðugu réttlæti sínu.
Ýmsar gagnrýnar raddir hafa verið frammi um að DV reyni að maka krókinn á óförum annarra. Sannleikurinn er hinsvegar sá að DV hefur tekið á sig hið vanþakkláta hlutverk að leiða fólk í allann sannleikann, en það er vitað mál að sannleikurinn er illa séður.
Sannleikurinn um Hverfisgötumorðingjann Sigurð Frey, er enn í fersku minni. Í viðleitni sinni til að birta meiri sannleik, voru birtar heilsíðufyrirsagnir um morðið og heilar forsíðumyndir og baksíðumyndir og opnumyndir af honum. Reiði og hefndarþorsti lesenda blaðsins fékk útrás við að lesa blaðið á sama hátt og þegar fólk barði, hrækti á og misþyrmdi þeim er lentu í gapastokknum hér áður. Móðir morðingjans fékk sömu meðferð, en náði þvímiður að verja sig að einhverju leyti.
Svo snúið sé aftur að gæðum fréttaflutnings, er sérstaklega áhugavert hvernig Fréttablaðið hefur reynt að afvegaleiða umræðuna um Lögreglurannsóknina og ákæruna á hendur Baugi. Þegar héraðsdómur hafði vísað ákærunni frá dómsmeðferð í heild sinni, kom hvert þrumuskotið á fætur öðru frá Fréttablaðinu. Fyrst var það samsæri svo var málið pólitískt svo var það Davíð Oddsson sem hélt í taumana og þegar hið frjálsa og flokksóháða Morgunblað byrjaði að verja sig og sína flokksmenn var Styrmir, ritstjóri Morgunblaðsins, hluti af samsærinu. Þessi svokallaða fréttamennska var síðan krydduð með kitlandi frásögnum af Jónínu Ben. og hennar tilhugalífi. Þetta er einfaldlega kölluð kryddsíld eða rauða síldin eftir síldinni sem notuð er erlendis til að draga athygli sporhunda frá einni slóð og fá þá yfir á aðra slóð sem hentar eiganda síldarinnar betur.
Einnig hefur það verið áhugavert hvernig fjölmiðlum hefur tekist að fjalla um svokallaða sakborninga eins og þeir væru sekari en t.d. þeir sem ákærðu þá. Það er eins og fjölmiðlarnir hafi gleymt, að líta skal á sérhvern sem saklausan þar til hann hefur verið dæmdur.
Að síðustu má ekki gleyma siðferðilegri ábyrgð fjölmiðla gagnvart almenningi, til að birta ekki villandi eða rangar upplýsingar svosem fyrirsögnina á þessari grein.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli