2005-10-13

Hápúnktur Dagsins.

Eftir langvarandi dvöl mína erlendis, var mig farið að hungra eftir dökku rúgbrauði, góðu gamaldags dökku seyddu rúgbrauði. Nú tel ég mig snilling í að baka færeyskt rúgbrauð sem er herramannsmatur með góðri síld, en þegar dökka rúgbrauðið vantar, er kvöldverðarborðið ekki alveg veisluborð. Þennan morgunn valdi útvarpið að hreyta í hlustendur sína uppskrift að dökku rúgbrauði. Ég tel það hinsvegar ekki mér samboðið að láta trufla mig í skyrinu og lýsinu til að pára niður einhverja vafasama uppskrift sem ég hef ekki smakkað. Ónei ég skyldi bara klára minn morgunmat í ró og næði, og síðan finna góða rúgbrauðsuppskrift á netinu.

Google valdi hinsvegar að benda mér á, að maður nefndur Sverrir Páll hefur einhverntíma minnst á rúgbrauð í vefdagbók sinni en uppskriftina fann ég enga þegar ég fór að leita. Hinsvegar fann ég gullkorn á vefi þessa manns sem ég þekki alls ekki að öðru leyti. Hann er menntaskólakennari við Menntaskólann á Akureyri og lætur sig varða menntamál, málefni ungs fólks og málefni norðurlands.

Sérstaklega vakti athygli mína umfjöllun hans á Gleðigöngunni (Gay Pride). Á meðan sumir nota málið sem svipu eða refsivönd og aðrir beita pennanum sem sverði, nær lýsing hans að snerta innsæi mitt og sú upplifun gerir þetta að hápúnkti dagsins (já Laxnesska er viðeigandi hér).

Einnig hefur hann nokkrar skemmtilegar athugasemdir við KEA málið. En það snýst um uppsögn starfsmanns af þeirri ástæðu að hann ákvað að nýta sér lögbundinn rétt sinn til fæðingarorlofs.

En rúgbrauðsuppskriftin? Koma dagar, koma ráð.

Engin ummæli: