Fyrir fáeinum mínútum síðan var ég að horfa á heimildarmynd frá BBC um glæpi Súdanstjórnar gegn mannkyni. Kínverjar, sem hafa neitunarvald í Öryggisráðinu, hafa viðskiptahagsmuna að gæta þar eð stór hluti olíuviðskipta þeirra er við súdan. Samkvæmt heimildarmyndinni, hótuðu kínverjar að beita neitunarvaldi sínu þegar hin einstöku ríki kusu um tillögu um að beita viðskiptabanni á Súdan. Á meðan alvarlegasti glæpur gegn mannkyninu, síðan fjöldamorðin í Rwanda, er framinn, segir fulltrúi kínversku fasistastjórnarinnar:
Business is Business.
Nú eru ekki mörg ár síðan Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra lét kínversku fasistastjórnina segja sér fyrir verkum að fremja pólítiskar ofsóknir á hendur saklausu fólki af þeirri ástæðu einni að þau voru meðlimir í samtökum er nefnast Falun Gong. Nú er sá hinn sami orðinn forsætisráðherra í hinu lýðfrjálsa Íslandi. Samtímis er talað um að nú skuli Ísland fá aðild að fyrrnefndu Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Ætla má að aðild að Öryggisráðinu hafi tilgang, þar á meðal að þjóna hagsmunum Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Þeirri spurningu er þó ósvarað, hvort tilgangurinn sé að ganga í ríkjagengi sem stendur saman um sameiginlega hagsmuni, eða hvort Ísland ætli eitt sér að frelsa kúgaða hópa undan harðstjórum og fasistum og virða kínversk, rússnesk og bandarísk neitunarvöld að vettugi.
Mannréttindabrot, þjóðarmorð, og glæpir gegn mannkyninu virðast vera nýtt í áróðursherferð fyrir slíkri aðild. Raunveruleikinn er bara allt annar. Virðist mér þó að slík rök, beri vott um veruleikaskyn á borð við Don Kíkóta. En nefndur Don Kíkóti sá ekki mun á vindmyllum og óvinum sínum og barðist við vindmyllur af miklum krafti.
Þegar um er að ræða baráttu gegn mannréttindabrotum, fjöldamorðum og þjóðarmorðum, er mikilvægt að gera slíkt af heilum hug en ekki geðklofa eins og stefna Bandríkjanna er í þessum efnum, þar sem mannréttindabrot eru gagnrýnd þegar slíkt hentar Bandaríkjunum, en vilja ekki styðja Mannréttindadómstólinn þar sem hann myndi draga bandaríkjamenn fyrir dóm vegna brota á mannréttindum. Það er til dæmis alþekkt að bandaríkjamenn beita mannréttindabrotum eins og pyndingum í alræmdum fangelsum sínum á svæðum sem mannréttindasamningar ná ekki til.
Nú á að gera út íslenskan Don Kíkóta fyrir þúsund milljónir íslenskra króna, til að berja á óvinum mannkyns. Það er spá mín að barátta hans mun verða gagnlausari en hins upprunalega, því honum tókst þó altént að rífa einhverjar myllur.
Stuðningsmenn aðildar öryggisráðs munu aldrei viðurkenna, að tilgangurinn með aðildinni er að komast í gengi ríkja sem þjóna eigin hagsmunum eftir einkunarorðinu:
Viðskipti eru viðskipti.
Þannig gæti aðild að öryggisráðinu orðið til þess að Ísland yrði enn eitt ríkið sem situr í lömuðu Öryggisráði, meðan mannréttindabrotin, fjöldamorðin og þjóðarmorðin eru framin fyrir framan nefið á okkur.
Dyggur alþjóða stuðningur við Mannréttindadómstólinn myndi hafa víðtæk áhrif um allann heim, og ákæra á hendur ábyrgra aðila í Súdan, myndi bjarga fjölmörgum mannslífum. Hinsvegar tel ég að alltof seint sé að ákæra fyrrverandi utanríkisráðherra fyrir aðild að óréttmætri fangelsun Falun Gong meðlima, en aldrei skal ég fyrirgefa honum það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli