2005-09-27

Blekkir Útlitið?

Kynhlutverki nokkurra stjórnmálamanna hefur verið flíkað mikið í auglýsingaherferð sem hefur þemaið “Láttu ekki útlitið blekkja þig!” . Í þeim tilgangi að vekja athygli á launamisrétti, er lágvaxinni ljóshærðri konu breytt, í þeim tilgangi að hækka laun viðkomandi. Fyrst grennir hún sig á meðan hún talar um að það þýði ekkert að vera draga aukakílóin á eftir sér.

Þarmeð er komin fyrsta staðhæfing auglýsingarinnar:

· Grannt fólk hafi hærri laun en fólk sem ekki er grannt.

Meðan hún talar um launamun vegna háralits, skellir hún sér í að láta lita hárið dökkt og þarmeð er komin önnur staðhæfing auglýsingarinnar:

· Dökkhært fólk hafi hærri laun en ljóshært fólk.

Ekki er fyrr búið að lita hár hennar, þegar hún skellir sér í einhverskonar vél sem teygir á henni, jafnframt því að hún útskýrir að:

· Hávaxið fólk hafi hærri laun en lágvaxið fólk.

Nú vantar bara eina breytingu í viðbót til að komast í hæsta launaflokk. Þessi nú hávaxna dökkhærða kona leggst á skurðborðið og hálfri sekúndu seinna rís upp myndarlegur karlmaður sem útskýrir með djúpri röddu:

· Karlmenn hafa mikið betri möguleika á að komast í stjórnunarstöður.

Til eru fjölmörg dæmi um að grannt fólk hafi lægri laun en fólk sem ekki er grannt, að ljóshært fólk hafi hærri laun en dökkhært fólk og að hávaxið fólk hafi lægri laun en fólk með venjulega hæð. Hér er um að ræða alhæfingar sem ekki standast í raun.

Tölfræðirannsóknir á launum karla og kvenna virðast benda til að í flestum tilvikum hafi karlmenn hærri laun en kvenmenn. Ég leyfi mér hinsvegar að spyrja varlega:

Ef það er rétt að karlmenn fái hærri laun en konur, hver er þá ástæðan?

Þeir sem staðið hafa að þessari auglýsingu þykjast þekkja svarið, því það er gefið með þema auglýsingarinnar. Fólk lætur útlitið blekkja sig og því þarf að vara fólk við þessari hættu. Þetta er vel þekkt rökleysa sem kallast slysni. Rökleysur (enska: et: fallacy, ft: fallacies) eru vel þekktar og hægt er að sækja meiri upplýsingar um þær með því að googla ensku heitin. Sjá td. Klassíska síðu Stephen Downes um rökleysur og nýrri og betur uppfærða síðu Adam Smith stofnunarinnar, The Adam Smith Institute.

Ég vil hinsvegar hætta slitnu mannorði mínu með þeirri staðhæfingu að fólk sem lítur út eins og konur séu bókstaflega konur, og á sama hátt að fólk sem lítur út eins og karlar, séu bókstaflega karlar. Þótt mat okkar á kyni sé huglægt og því ekki algildur mælikvarði, er það samt ótrúlega nákvæmt. Þetta er það sem teljast má eðlilegt og engin ástæða er til að breyta því eins og auglýsingin stingur upp á.

Sannleiksgildi staðhæfingar minnar, minnkar til dæmis ekki þó til sé fólk með kynáttunarvanda eða önnur vandamál tengd kyngervi (enska: gender).

Þessi auglýsingaherferð er á algjörum misskilningi byggð og árangur hennar verður þareftir. Eftir stendur sá boðskapur að til sé varasamt fólk sem villir á sér heimildir.

Hver er raunveruleg ástæða launamisréttis?

Í gegnum tíðina hafa komið fram ýmsar staðhæfingar um ástæðu kynjamisréttis.

Rauðsokkurnar kenndu körlum um, karlarnir kenndu menntunarleysi um, konurnar kenndu börnunum um, samtímis því að foreldrar kenndu börnum sínum tilgang kynhlutverka: Pabbi vinnur úti af því að það eiga pabbar að gera, og mamma er heima af því að mömmur eiga að sjá um heimilið.

Eftir stendur spurningin um ástæðu kynjamisréttis algerlega ósvöruð sem fyrr.

Engin ummæli: