2007-01-16

Umskiptingar Íslenskrar Tungu.

Í þekktri í slenskri þjóðsögu er umskiptingur nefndur. Umskiptingurinn var ómennskt afkvæmi trölla er höfðu numið mannsbarn á brott og sett eigið afkvæmi í stað mannsbarnsins. Mennsku foreldrarnir sátu því uppi með ómennskan umskiptinginn sem enginn vildi eiga.

Stuttu eftir að íslensk tunga hafði eignast nýyrðið trans, vað það numið á brott og orðskrípið kynskiptingur sett í stað þess. Umskiptingur þessi, var afkvæmi Ensk-íslenskrar Orðabókar [1984 Örn og Örlygur], og frjórra höfunda hennar.

Enn einn umskiptingur íslenskrar tungu, er orðið hamskiptingur sem kom fyrir í nýlegri þýðingu á kvikmyndinni um Harry Potter og Fangann Frá Azkaban.

Hamskipti eru nefnd í Snorra Eddu, en Óðin gat tekið hamskiptum hvenær sem var, en var þó ekki kallaður hamskiftingur. Hamskipti vara stuttan tíma en að þeim liðnum birtist Óðinn í sinni eiginlegu mynd.

Undir lok 19. aldar skrifaði Finnur Jónsson um galdur og seið og nefndi þar meðal annars hamskifti:

... þeir sem þetta gátu, hjetu alment hamhleypur, og vóru nefndir eigi einhamir, að hamast er sama sem að hleypa ham, pp. 21.


Þarna kemur fram nafnorðið hamhleypa sem sögnin, að vera, tekur með sér í nefnufalli. Á síðustu öld var oft sagt um bráðduglegt fólk, að hann eða hún væri hamhleypa til allra verka, og var því mikill mannkostur.

Nafnorðið hamskipti (en: n: metamorphosis, v: metamorphose) er eitt af upprunalegum orðum íslenskrar tungu, en eins og ofannefndar heimildir sýna er orðið hamskiptingur ónauðsynlegt. Vert er að taka eftir að öll orð sem enda á -skiptingur lýsa eiginleikum sem liggja utan þess sem eðlilegt getur talist.

Aðalsmerki góðs íslensks máls er gegnsæi þess. Íslenskan hefur einstaka eiginleika til að setja saman orð og búa til nýja merkingu sem er gegnsæ og skiljanleg. Þegar orðið hamskiptingur er skoðað, þarf að skoða orðin hamur, skipti og endinguna ingur. Endingin -ingur tengir gefna eiginleika við þann sem átt er við. Orðið íslendingur tengir þann Íslandi sem átt er við. Með viðskeytinu -ingur má nota orðið í nefnifalli með sögninni að vera, við þann sem átt er við. Þarna komum við að kjarna málsins, sem er einföldun málfræðinnar, en skilyrðin fyrir því eru einmitt umskiptingar íslenskrar tungu. Umskiptingar sem tengjast sögninni að vera og eru í nefnifalli. Endingin -ingur og sögnin að vera í setningunni “hann er hamskiptingur” segja nákvæmlega sama hlut.

Setningin er í besta falli einfeldningsleg því með þremur orðum læst hún lýsa allri verund Óðins. Þessi lítilsiglda málnotkun á hljóðfæri hugans er langt undir fátæktarmörkum í þeirri auðugu tungu sem íslenskan er.


Þessir umskiftingar íslenskrar tungu, voru upprunalega íslensk sagnorð sem breytt var í nafnorð með endingunni -ingur. En eins og flestir vita hefur enska þá eiginleika að búa má til nafnorð úr öllum sagnorðum enskrar tungu. Íslenska - og önnur norðurlandamál - hefur lengi legið undir þrýstingi og áhrifum enskrar tungu. Áðurnefnd orðabók er þýðing á ensku orðabókinni Scott, Foresman Advanced Dictionary. Þýðing á orðabókum er vandaverk, og það virðist sem höfundarnir hafi látið undan áhrifamætti enskunnar og farið að búa til úr sagnorðum, nafnorð sem sögnin “er” stýrir í nefnifall.


Merking orðsins skipti

Þó skipti séu ekkert nauðsynlega jöfn eða sanngjörn, ganga skipti á eignum eða vörum samtímis í báðar áttir. Einnig geta skipti gengið til baka og þá sérstaklega ef mönnum þykja skiptin slæm, þegar skiptin eru skoðuð eftir á.

Skipting eftir kyni

Þegar jafnréttismál eru skoðuð, er oft litið á hversu margir einstaklingar eru af hverju kyni í gefnum hópum. Þetta er einfaldlega kallað kynskipting.

Kynskipting íslenskra lækna samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu læknafélaganna” [Læknablaðið,12. tbl 91. árg. 2005, Læknafélag Íslands, Reykjavík]

Í Læknablaðinu, er orðið kynskipting notað um skiptingu íslenskra lækna eftir kyni.


Á þessari mynd sjáum við kynjaskiptingu kjörinna fulltrúa á tímabilinu 1990 - 2002. Við sjáum að hér hefur átt sér stað hægfara en stöðug þróun í átt að jafnrétti. Hlutfallsleg skipting kynjanna hefur farið úr því að vera um 20%-80% í 30%-70%. Talað er um að jafnrétti sé náð þegar hlutfallsskiptingunni 40%-60% hefur verið náð, það er því ljóst að enn vantar herslumuninn. Ef við skoðum hinsvegar kynskiptinguna út frá fjölda en ekki hlutföllum, verður myndin svolítið öðruvísi.” [www.jafnretti.is 16. jan 2007]

Jafnréttisstofa notar orðin kynskipti og kynjaskipti jöfnum höndum um kynjahlutföll kjörinna fulltrúa. Rétt er að nota orðið skipting um skiptingu eftir kyni, og er það í fullkomnu samræmi við gegnsæi íslenskrar tungu, að mynda orðin kynskipti og kynjaskipti um þetta. Í þessu samhengi er orðskrípið kynskiptingur eins og álfur út úr hól.

kønsskifte,kjönnsbyte,könsbyte

Þegar litið er til annarra norrænna tungumála má t.d. finna nafnorðið “kønsskifte” í dönsku en sögnin “at skifte kön” svarar til íslensku “að skifta um kyn”. Þrátt fyrir mun meiri áhrif enskunnar á dönsku, sænsku og norsku, en á íslensku, er ekki til neitt orð í þessum tungumálum sem svarar til áðurnefnds orðskrípis. Í stað þess að búa til orðskrípi sem eru lýti á málinu, eru ensku orðin yfir þetta orðin hluti af þessum tungum.

Beinar þýðingar úr dönsku hafa hingaðtil ekki verið vel séðar og þegar þýtt er orðrétt, verður með þær þýðingar eins og eitt lag Þeirra Halla og Ladda, Köben, sem var eintómur misskilningur. Danska orðið “kønsskifte” myndi á íslensku merkja kynbreyting, þar sem breytingin er varanleg, og það liggur í merkingu orðsins breyting.


Þetta er undarleg málvernd, að láta reglur enskrar tungu ráða myndun nafnorða, einmitt til að forðast að taka upp alþjóðlegt tökuorð.

Þýski læknirinn Magnus Hirschfeld byrjaði fyrstur manna um 1920 að nota latnesku orðin trans vestus sem greiningu á karlmönnum sem notuðu kvenföt. Bandaríski læknirinn John Money kynnti á fimmta áratug síðustu aldar, hugtakið trans sexual sem læknisfræðilega greiningu á fólki sem óskar eftir skurðaðgerð til leiðréttingar á kyni.

Síðan virðast hafa orðið til heilu kynþættirnir af fólki sem virðist vera“Transsexual Transvestite from Transsylvania” .

Einnig er vert að hafa í huga að á þýsku er notað orðið nafnorðið transsexuell um þessa greiningu.


Vanda skal orðaval

Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir að kynskiptingur er bara orðskrípi sem nota má í gríni eða sem skammaryrði. Aðal tilgangur þessara skrifa, er að hjálpa fólki með orðaval þegar rætt er og skrifað um transgender fólk.

Nafnorð eins og áðurnefnt orðskrípi, er til þess eins fallið að setja einstaklinginn utan hins eðlilega andspænis hópi fólks. Oft felst einnig í því siðferðilegur dómur. Á þennan hátt verða minnihlutahópar til með öllum þeim vandkvæðum sem því fylgir. Sagan hefur sannað aftur og aftur að meirihlutinn rekur einstaklinga eins og sauði í réttir þess minnihlutahóps. Því er ekki of mikils krafist að réttirnar séu rétt nefndar.



Engin ummæli: