2007-01-26

Spyrjum að leikslokum

Baugsmálinu er endanlega lokið í dag. Hæstiréttur úrskurðaði að Baugsfeðgar og aðrir ákærðir í hinu svonefnda Baugsmáli voru öll sýknuð af ákærum á hendur þeim.

Mér skilst að Ríkissaksóknari hafi fyrir nokkru síðan sótt um aukafjárveitingu upp á 30 milljónir. Tap Baugs vegna þessa máls er líklega milljarðar. Heildarkostnaður þjóðfélagsins er verulegur og hver borgar brúsan nema Jón og Gunna? Líklegt er að enginn verði dreginn til ábyrgðar fyrir því tapi sem þetta málaferli hefur orsakað.

Það tap sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir vegna bókhaldsóreiðu Byrgisins, verður hinsvegar haldið til haga, og líklegt er að fleiri en einn missi vinnuna. Þeir fíklar sem urðu edrú verða líklega gleymdir og fólkið sem var misnotað verður líklega einnig gleymt.



2007-01-21

Ekki kyn mitt sem slíkt

Halla Gunnarsdóttir var í viðtali við Rás 2 um kl 13:10 og sagði meðal annars:

Það er ekki kyn mitt sem sem slíkt sem skiptir máli í þessu sambandi, heldur sú reynsla sem ég hef sem kona.

Halla bauð sig fram sem formaður Knattspyrnu Sambands Íslands, KSÍ. Hún hefur spilað fótbolta síðan hún var 6 ára, og er femínisti. Kynjamismunun í fótbolta á Íslandi varð fræg árið 2006, þegar í ljós kom að eingöngu karlar fá greitt fyrir að spila. Með þessu hefur hún tekið á lyftistöng dagsins.

2007-01-20

Mærulaus og athyglislaus.

Nóa Síríus konfektið sem ég fékk í jólagjöf var að klárast. Það er svosem ekkert voðalegt að hafa ekki mæru, en huggulegt að fá bita, hálfsofandi í rúminu. Að auki hefur mér tekist að gera mig svo óvinsæla, að nú er um einn lesandi á dag að blogginu mínu. Hvað get ég gert við því?



Lesandi þessa bloggs, er beðinn að gefa sig fram tafarlaust vegna yfirvofandi hættu á leiðindum. Einn besti kúr við slíku væri líklega að skoða afmælið hans Ladda, en hann á afmæli í dag. Ef ég hefði tíma myndi ég kíkja þagað líka, en þá er hætt við að athyglissýkin taki yfirhönd og ég fari veltandi til Ladda og heilsi honum og óski honum til hamingju með afmælið.


Svo óforskömmuð einkenni

um athyglissýki

get ég ekki látið eftir mér.

Ó vorkennið mér!


Ég hef allt sem ég vill fá og eiga,

en samt vill ég meira.

Eitthvað sem lífið hefur uppá að bjóða.

Ó vorkennið mér!


Nú er ég sú óvinsælasta í bloggheimi.

Vill bara skrifa um

efni sem fólk á netinu nennir ekki að lesa.

Hvað get ég gert við því?

2007-01-18

Til forsætisráðherra um einstaklinga í kynáttunarvanda (transgender).

Á Alþingi var í dag fimmtudag 2007-01-18, kl. 12:09, útbýtt þingskjali með nafninu:

Einstaklingar í kynátturnarvanda, 497. mál, fsp. GÖg, þskj. 752.


2007-01-16

Umskiptingar Íslenskrar Tungu.

Í þekktri í slenskri þjóðsögu er umskiptingur nefndur. Umskiptingurinn var ómennskt afkvæmi trölla er höfðu numið mannsbarn á brott og sett eigið afkvæmi í stað mannsbarnsins. Mennsku foreldrarnir sátu því uppi með ómennskan umskiptinginn sem enginn vildi eiga.

Stuttu eftir að íslensk tunga hafði eignast nýyrðið trans, vað það numið á brott og orðskrípið kynskiptingur sett í stað þess. Umskiptingur þessi, var afkvæmi Ensk-íslenskrar Orðabókar [1984 Örn og Örlygur], og frjórra höfunda hennar.

Enn einn umskiptingur íslenskrar tungu, er orðið hamskiptingur sem kom fyrir í nýlegri þýðingu á kvikmyndinni um Harry Potter og Fangann Frá Azkaban.

Hamskipti eru nefnd í Snorra Eddu, en Óðin gat tekið hamskiptum hvenær sem var, en var þó ekki kallaður hamskiftingur. Hamskipti vara stuttan tíma en að þeim liðnum birtist Óðinn í sinni eiginlegu mynd.

Undir lok 19. aldar skrifaði Finnur Jónsson um galdur og seið og nefndi þar meðal annars hamskifti:

... þeir sem þetta gátu, hjetu alment hamhleypur, og vóru nefndir eigi einhamir, að hamast er sama sem að hleypa ham, pp. 21.


Þarna kemur fram nafnorðið hamhleypa sem sögnin, að vera, tekur með sér í nefnufalli. Á síðustu öld var oft sagt um bráðduglegt fólk, að hann eða hún væri hamhleypa til allra verka, og var því mikill mannkostur.

Nafnorðið hamskipti (en: n: metamorphosis, v: metamorphose) er eitt af upprunalegum orðum íslenskrar tungu, en eins og ofannefndar heimildir sýna er orðið hamskiptingur ónauðsynlegt. Vert er að taka eftir að öll orð sem enda á -skiptingur lýsa eiginleikum sem liggja utan þess sem eðlilegt getur talist.

Aðalsmerki góðs íslensks máls er gegnsæi þess. Íslenskan hefur einstaka eiginleika til að setja saman orð og búa til nýja merkingu sem er gegnsæ og skiljanleg. Þegar orðið hamskiptingur er skoðað, þarf að skoða orðin hamur, skipti og endinguna ingur. Endingin -ingur tengir gefna eiginleika við þann sem átt er við. Orðið íslendingur tengir þann Íslandi sem átt er við. Með viðskeytinu -ingur má nota orðið í nefnifalli með sögninni að vera, við þann sem átt er við. Þarna komum við að kjarna málsins, sem er einföldun málfræðinnar, en skilyrðin fyrir því eru einmitt umskiptingar íslenskrar tungu. Umskiptingar sem tengjast sögninni að vera og eru í nefnifalli. Endingin -ingur og sögnin að vera í setningunni “hann er hamskiptingur” segja nákvæmlega sama hlut.

Setningin er í besta falli einfeldningsleg því með þremur orðum læst hún lýsa allri verund Óðins. Þessi lítilsiglda málnotkun á hljóðfæri hugans er langt undir fátæktarmörkum í þeirri auðugu tungu sem íslenskan er.


Þessir umskiftingar íslenskrar tungu, voru upprunalega íslensk sagnorð sem breytt var í nafnorð með endingunni -ingur. En eins og flestir vita hefur enska þá eiginleika að búa má til nafnorð úr öllum sagnorðum enskrar tungu. Íslenska - og önnur norðurlandamál - hefur lengi legið undir þrýstingi og áhrifum enskrar tungu. Áðurnefnd orðabók er þýðing á ensku orðabókinni Scott, Foresman Advanced Dictionary. Þýðing á orðabókum er vandaverk, og það virðist sem höfundarnir hafi látið undan áhrifamætti enskunnar og farið að búa til úr sagnorðum, nafnorð sem sögnin “er” stýrir í nefnifall.


Merking orðsins skipti

Þó skipti séu ekkert nauðsynlega jöfn eða sanngjörn, ganga skipti á eignum eða vörum samtímis í báðar áttir. Einnig geta skipti gengið til baka og þá sérstaklega ef mönnum þykja skiptin slæm, þegar skiptin eru skoðuð eftir á.

Skipting eftir kyni

Þegar jafnréttismál eru skoðuð, er oft litið á hversu margir einstaklingar eru af hverju kyni í gefnum hópum. Þetta er einfaldlega kallað kynskipting.

Kynskipting íslenskra lækna samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu læknafélaganna” [Læknablaðið,12. tbl 91. árg. 2005, Læknafélag Íslands, Reykjavík]

Í Læknablaðinu, er orðið kynskipting notað um skiptingu íslenskra lækna eftir kyni.


Á þessari mynd sjáum við kynjaskiptingu kjörinna fulltrúa á tímabilinu 1990 - 2002. Við sjáum að hér hefur átt sér stað hægfara en stöðug þróun í átt að jafnrétti. Hlutfallsleg skipting kynjanna hefur farið úr því að vera um 20%-80% í 30%-70%. Talað er um að jafnrétti sé náð þegar hlutfallsskiptingunni 40%-60% hefur verið náð, það er því ljóst að enn vantar herslumuninn. Ef við skoðum hinsvegar kynskiptinguna út frá fjölda en ekki hlutföllum, verður myndin svolítið öðruvísi.” [www.jafnretti.is 16. jan 2007]

Jafnréttisstofa notar orðin kynskipti og kynjaskipti jöfnum höndum um kynjahlutföll kjörinna fulltrúa. Rétt er að nota orðið skipting um skiptingu eftir kyni, og er það í fullkomnu samræmi við gegnsæi íslenskrar tungu, að mynda orðin kynskipti og kynjaskipti um þetta. Í þessu samhengi er orðskrípið kynskiptingur eins og álfur út úr hól.

kønsskifte,kjönnsbyte,könsbyte

Þegar litið er til annarra norrænna tungumála má t.d. finna nafnorðið “kønsskifte” í dönsku en sögnin “at skifte kön” svarar til íslensku “að skifta um kyn”. Þrátt fyrir mun meiri áhrif enskunnar á dönsku, sænsku og norsku, en á íslensku, er ekki til neitt orð í þessum tungumálum sem svarar til áðurnefnds orðskrípis. Í stað þess að búa til orðskrípi sem eru lýti á málinu, eru ensku orðin yfir þetta orðin hluti af þessum tungum.

Beinar þýðingar úr dönsku hafa hingaðtil ekki verið vel séðar og þegar þýtt er orðrétt, verður með þær þýðingar eins og eitt lag Þeirra Halla og Ladda, Köben, sem var eintómur misskilningur. Danska orðið “kønsskifte” myndi á íslensku merkja kynbreyting, þar sem breytingin er varanleg, og það liggur í merkingu orðsins breyting.


Þetta er undarleg málvernd, að láta reglur enskrar tungu ráða myndun nafnorða, einmitt til að forðast að taka upp alþjóðlegt tökuorð.

Þýski læknirinn Magnus Hirschfeld byrjaði fyrstur manna um 1920 að nota latnesku orðin trans vestus sem greiningu á karlmönnum sem notuðu kvenföt. Bandaríski læknirinn John Money kynnti á fimmta áratug síðustu aldar, hugtakið trans sexual sem læknisfræðilega greiningu á fólki sem óskar eftir skurðaðgerð til leiðréttingar á kyni.

Síðan virðast hafa orðið til heilu kynþættirnir af fólki sem virðist vera“Transsexual Transvestite from Transsylvania” .

Einnig er vert að hafa í huga að á þýsku er notað orðið nafnorðið transsexuell um þessa greiningu.


Vanda skal orðaval

Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir að kynskiptingur er bara orðskrípi sem nota má í gríni eða sem skammaryrði. Aðal tilgangur þessara skrifa, er að hjálpa fólki með orðaval þegar rætt er og skrifað um transgender fólk.

Nafnorð eins og áðurnefnt orðskrípi, er til þess eins fallið að setja einstaklinginn utan hins eðlilega andspænis hópi fólks. Oft felst einnig í því siðferðilegur dómur. Á þennan hátt verða minnihlutahópar til með öllum þeim vandkvæðum sem því fylgir. Sagan hefur sannað aftur og aftur að meirihlutinn rekur einstaklinga eins og sauði í réttir þess minnihlutahóps. Því er ekki of mikils krafist að réttirnar séu rétt nefndar.



2007-01-13

Fyrirspurn um kynáttunarvanda á Alþingi.

Guðrún Ögmundsdóttir er eini þingmaður á Alþingi sem hefur sýnt pólítískan vilja til að gera eitthvað við því pólítíska getuleysi, sem ríkt hefur hingaðtil á sviði kynáttunarvanda. Ég vona að henni takist að taka frumkvæði að aðgerðum á þessu sviði innan skamms. Það yrði mér mikill heiður ef ég fengi að aðstoða eitthvað við það.


2007-01-11

Tónleikar með Andreu Gylfadóttur

Ég hef verið á nokkrum tónleikum um ævina og eftirminnilegustu tónleikarnir eru ætíð þeir sem eru í litlum sal þar sem áheyrendur og listamenn eru þétt saman. Andrúmsloftið inni hlýtt og afslappað, en úti var frost og skafrenningur. Hún beitir rödd sinni alveg ótrúlega flott og nákvæmlega. Gítarleikarinn lék undir í improvíseruðum blönduðum blues jazz stíl. Raddbeitingin hafði mest áhrif á mig í fyrsta lagi hennar sem ég man ekki hvað heitir. Þau lög sem ég man eftir eru My Favorite Things sem upprunalega er sungið af Julie Andrews, Walk on the Wild Side með Lou Reed, og I Am Calling You úr kvikmyndinni Bagdad Cafe . Í Walk On The Wild Side, þegar hún var komin að “ ... and the colored girls sang” gat ég ekki stillt mig um að byrja að syngja bakrödd lágt svo fáir heyrðu, tudu, dudu du du dududu du dudu ...

Þetta var verulega eftirminnilegt kvöld og mér finnst að ég sé ótrúlega heppin að fá að njóta upplifununar eins og þessarar.

2007-01-08

Foreldrar sem fengið hafa leiðréttingu á kyni.

Þau okkar sem hafa upplifað að vera kynforeldri eða uppeldisforeldri, vita hversu gefandi og þroskandi það er. Þó að börnin okkar séu bara að láni í stuttan tíma, eru þau samt það besta sem við höfum nokkurn tíman eignast. Einmitt þessar tilfinningar eiga ekki að vera til í fólki með kynáttunarvanda.

Eitt af skilyrðunum fyrir aðstoð heilbrigðiskerfisins er sú ranghugmynd að fólk með kynáttunarvanda, hafi enga löngun til að eignast börn og sé eiginlega infantílt á því sviði. Annað skilyrði er að við höfum enga gleði af kynfærum okkar þrátt fyrir að allar manneskjur séu kynverur. Þetta er ein af ástæðunum fyrir gagnrýni minni á meðferðarúrræði og möguleika heilbrigðiskerfisins á kynáttunarvanda.

Útskriftarveisla

Dóttir mín var að útskrifast sem stúdent. Við ákváðum þegar í byrjun desember að nota tækifærið og stíma fjölskyldu og vinum saman í Útskriftarveislu. Ég leigði huggulegan sal og allur frítími fimmtudags og föstudags fór í að leggja lokahönd á skipulag og gera matinn. Við höfðum ákveðið að gera allt sjálf og láta reyna á hvað við gætum. Veislan var haldin á þrettándanum og tókst framar vonum. Þau sem standa okkur nær, komu einnig með ýmisleg og auðvitað var þetta mikið meir en nóg af mat. Það er siður í okkar fjölskyldu og brást ekki í þetta skipti.


Það var mikil upplifun að vinna með þessu unga fólki og sjá áræði og dugnað og að þau vaxa með verkefnunum. Ég fyllist gleði í hvert sinn sem ég sé að næsta kynslóð gefur minni eigin kynslóð ekkert eftir, enda þurfti ekki mikið til. Ég á eftir að lifa hátt á gleðinni eftir þessa veislu, næstu vikurnar.


2007-01-04

Jólaleti

Jólin eru frábær tími til að elda meiri mat en hægt er að torga, og liggja síðan í leti. Annars var sjónvarpið sæmilegt. Sérstaklega berð þar að nefna Áramótaskaupið. Þegar um 10 mínútur voru liðnar af því og mér hafði ekki komið hlátur í hug, hafði ég or á að það væri afburða lélegt. Sem betur fer var í miðju skaupinu einhverskonar ávarp til þeirra sem fannst skaupið lélegt. Samkvæmt þessu ávarpi, var skaupið hafið yfir lélegan smekk, og þau sem höfðu engan skilning á húmor gátu með engu móti haft gaman af skaupinu. Þá skildi ég brandarann: Þetta var skírskotun í Nýju Fötin Keisarans, en þar voru þeir óhæfir í starfi sínu, er sáu ekki hin nýju glæsilegu föt Keisarans. Á svipaðan hátt voru þeir gjörsneyddir kímnigáfu er skildu ekki þetta frábæra skaup. Þar sem ég hef haldið mig vera með háa kímnivísitölu, áleit ég að skaupið hefði stórbatnað og að í raun væri ótrúlega fyndið að hrekkja þjóðina með grátlega leiðinlegum leiknum fréttaskotum úr stjórnmálum, þegar fólk standa spennt með flugeldana í höndunum og heitt kakó og jólasmákökur á borðum. Stórkostlega fyndið!

Þetta er eins og einn lélegasti þáttur nýrra tíma er heitir Tekinn, þar sem einhvert grandalaust smástirni er sett í óþægilega stöðu og gerir mannleg mistök meðan alþjóð fylgist með. Þarna varbrandaranum snúið við: Ein leikstjóraspíra hefur alþjóð að fífli að yfirlögðu ráði og skellihlær og auðvitað hlægjum við með sem höfum skilning á húmor. Hvað annað?