2005-11-11

Um Beina Markaðssetningu.

Ég hef unnið við beina markaðssetningu í ýmsum verkefnum, allt saman góðgerðarstarfsemi. Allt gott um það að segja, þetta voru brýn verkefni og nauðsynlegt að vekja athygli landans á þeim og samtímis afla þeim fjár.

Kíkjum á hvernig þetta er unnið. Hagstofan og samvinnufyrirtæki hennar sem ég hef skrifað um áður, framleiða lista með persónuupplýsingum sem seld eru einkafyrirtækjum, félögum og samtökum sem hafa tök á að gjalda uppsett verð. Það segir sig sjálft, að slíkir listar eru notaðir í fleiri ár áður en farið er út í að fjárfesta í nýjum listum. Á þeim tíma sem líður milli uppfærslu á listunum, hafa margar manneskjur látið setja merki í þjóðskrá, sem bannar notkun á persónuupplýsingum í tilgangi beinnar markaðssetningar. Samt sem áður er haldið áfram að hringja í þetta fólk, því listarnir eru óuppfærðir.

Hægt að gagnrýna löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið fyrir að gefa ekki einstaklingum kost á að verja sig gegn sífelldum símhringingum til stuðnings brýnustu málefnum dagsins.

Ég hef áður gagnrýnt framkvæmdavaldið en kíkjum á löggjafarvaldið og götin í löggjöfinni. Tökum sem dæmi athugasemdina sem stendur neðst á vefsíðu símaskrárinnar.

Ath.

X í dálknum "Símasala" þýðir að rétthafi númersins hefur óskað eftir að vera ekki ónáðaður af aðilum sem stunda beina markaðssetningu. Samkvæmt 46. grein fjarskiptalaga nr. 81/2003 er áskrifanda í fjarskiptaþjónustu heimilt að krefjast þess að upplýsingar skráðar um hann megi ekki nota í tilgangi beinnar markaðssetningar "[...] Símnotendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt."

Orðalagið “heimilt að krefjast” gefur enga tryggingu gegn misnotkun á skráðum upplýsingum. Það skyldar heldur ekki aðila til að fjarlægja þær upplýsingar sem sett hefur verið merki við í þjóðskrá. Með þessu orðalagi laganna, er heimilt að hringja í áskrifanda sem eru á óuppfærðum listum, þósvo að áskrifandinn hafi nýlega látið Hagstofu vita að slíkt megi ekki. Þetta er nú eitt gatið.

Orðalagið “skulu virða merkingu í símaskrá” skyldar ekki hlutaðeigandi aðila til að líta í símaskránna til að athuga hvort þessi eða hinn áskrifandinn séu merktir með X í símaskránni.

Merking gegn notkun á persónuupplýsingum í þessum tilgangi ætti að vera sjálfgefin við skráningu nýrra einstaklinga í þjóðskrá. Síðan geta einstaklingarnir sjálfir ákveðið að leyfa slíka notkun á upplýsingum sínum.

Brot á þessu ætti að varða við sekt.

Vandamálið er hinsvegar mikið stærra en bara þetta. Fyrirtæki með stóran viðskiptamannahóp er talið eiga upplýsingar um viðskiptavini sína. Ég tel að svo sé ekki. Fyrirtæki af þessu tagi eru Síminn, Og Vodafone, Orkuveitan, Landsvirkjun, Bankar og Sparisjóðir, Landsspítalinn, Íslensk Erfðagreining, Ættfræðigagnagrunnar og fleiri.

Það er eðli persónuupplýsinga, að það er persónan sjálf sem á þær. Þegar persónan stofnar til viðskifta við annann aðila veitir hún honum sjálvirka heimild til að nota persónuupplýsingar í þeim tilgangi að tryggja viðskiptin. Þegar viðskiptin eru yfirstaðin, fellur heimildin sjálfvirkt úr gildi og hefur aðilinn ekki lengur heimild til að nota persónuupplýsingarnar. Þetta er mjög svipað og heimild til að nota hugbúnað. Td. Byggir Microsoft veldið á sölu á heimildum til að nota hugbúnað. Hugbúnaður er ekki söluvara sem slíkur, heldur fylgir hann bara með heimildinni til að nota hann.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Djúphugsaðir hjá þér pistlanir þessa dagann , verð a' lesa þá oft og vandlega áður en maður getur skrifað þó ekki væri nema smá athugasemd.

Anna Jonna sagði...

Æ já það er gaman að blogga, en pistlarnir mínir eru svo þungir og hundleiðinlegir. Þar að auki er þetta altsaman tapaður málstaður og ég skrifa samt ...