2005-11-10

Að kaupa eða kaupa ekki ...

Það ræðst af vísitölum sem eru náskyldar verðbólgu og eru háðar ansi flóknu samspili eldsneytisverðs, launahækkana og bla bla bla. Byrjun þessa bloggs var eins og variant við eitt frægasta leikrit Shakespeare en samviskulaus raunveruleikinn tróð skáldskapinn undir fótum.

Jæja hvað um það, það sem ég ætlaði að segja með þessu er, að mig vantar íbúð. En ég vill ekki kaupa meðan íbúðaverðið er svona hátt. Jú sjáið til, dæmið er svona: mig langar í íbúð sem samkvæmt fasteignamati kostar á bilinu 7 til 9 millj, segjum 8 millj. Slík íbúð er seld á 12,5 milljónir króna. Nú jæja ég gæti látið mig hafa það en hvað með lánin, ég á bara nokkrar krónur.

Það eru lánin sem eru raunverulegi skíthællinn í þessum húsnæðiskaupaleik. Ef ég er svo dugleg að ég geti borgað lánin á 20 árum þá slepp ég með að borga um 20 milljónir fyrir lánið. Þetta eru vextir, verðtrygging og fleira. En þetta er eingöngu ef verðbólgan er mjög lág eða undir 4 %.

Hvað gerist ef verðbólgan fer upp úr öllu valdi eins og Íslandsbanki og aðrir bankar spá. Spáin er um 9% verðbólga. Það merkir að þá þarf ég að borga 130 milljónir fyrir að fá sama lán.

Í dag kl 9:00 ætlar Hagstofan að birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir þennan mánuð. Spá bankanna var 0,1% fyrir nóvember 2005. Óskiljanlegt að ég skuli vera svo spennt fyrir svo leiðinlegri tölu.

Held ég vitni í lagið; svo skal böl bæta, eftir Megas og Tolla:

Launþegin hnígur niður lafmóður með ægilegan sting
& Lánskjaravísitalan hverfur út við sjóndeildarhring.
& ástandið í póllandi fer hríðversnandi dag frá degi.
Það dylst þeim ekki sem hér eru við hungurmörk svo ég held ég bara þegi.
Þú flettir mogganum og ég sé að það er sannað,
Að svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.


Er ekki einhver sem man þetta betur en ég?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki kaupa strax , því það sem fer upp hlýtur að koma niður á endanum , og í þessum brasa verður það líkast hruni er það kemur og þá skaltu kaupa .

Anna Jonna sagði...

Já hún Anna K. vinkona okkar segir það sama. Ég hef skráð mig í Búseta eftir tilskipun hennar en ég finn enga íbúð sem ég er ánægð með. Sérstaklega erfitt að fá íbúð með almennilegu vinnueldhúsi þar sem ég get bakað lon og don.