Af tilefni tilraunar Guðmundar Steins Magnússonar til að kyrkja unga transgender manneskju, skrifaði Eiríkur Jónsson grein í Séð og Heyrt nr.7 2007, 15. - 21. febrúar undir forsíðuyfirskriftinni “KÆRASTAN MEÐ TYPPI”. Innihald greinarinnar er mannorðsmorð á fórnarlambi árásarinnar.
Grein Eiríks dregur taum árásarmannsins við að sannfæra lesandann um að morðtilraunin hafi verið eðlileg viðbrögð manns, í hans aðstæðum, við transgender einstaklingi. Í greininni er lýst aðdraganda þess að Guðmundur reyndi að kyrkja fórnarlambið. Greinin endar á orðum sem túlka má sem hvatningu til ofbeldis gegn transgender einstaklingum, þar sem Eiríkur skrifar og vitnar í ofbeldismanninn “Hvað hefðuð þið gert í mínum sporum? Svona sviksemi kemur öllum úr jafnvægi.” Afstaða árásamannsins og kringumstæður tilræðisins, sýnir að um var að ræða tilraun til ærumorðs, og að þetta átti ekkert skylt við ástríðuglæp.
Undirtónn greinarinnar er léttur og gert er góðlátlegt grín að þeirri stöðu sem kom upp. Sérhver heiðvirður blaðamaður ætti að vita, að það kann ekki góðri lukku að stýra að draga fórnarlömb kynferðisofbeldis inn í grín. Alveg sama hvernig það er matreitt.
Í greininni er talað um “kvennafar sem snérist upp í andhverfu sína”, “þetta var karlmaður”, “að konan væri karlmaður”, “gervibrjóstin blekktu mig og rassinn á honum var mjög kvenlegur” sem sýnir þá staðreynd að manneskjan sem þarna er lýst sé að flestu leyti eins og kona en því er samtímis neitað og gert að mótsögn og blekkingu. Staðhæfingar greinarhöfundar og árásarmannsins um að fórnarlambið sé að þykjast vera einhver önnur manneskja en hún er í raun, eru í raun mannorðsmorð. Staðhæfingarnar eru einnig alhæfingar um transgender sem minnihlutahóp, og því árás á minnihlutahópinn sem slíkan.
Greinin fjallaði einhliða um ofbeldismanninn, og þar er honum hampað sem hörkutóli sem “geti verið grjótharður þegar því er að skipta”. sem var “svikið” og “prettað” “leiddur í gildru”, “ósáttur við blekkingar eins og þegar maður þykist vera kona”. Allar þessar tilvitnanir eru úr áðurnefndri grein Eiríks, og halla þær mjög á fórnarlamb morðtilraunarinnar. Í þessari grein er staða fórnarlambsins gerð ótrúverðug og reynt er að láta líta svo út að fórnarlamb árásarinnar geti sjálfu sér um kennt hvernig fór. Greinin er sameiginleg vanvirðing Eiríks Jónssonar og árásarmannsins við fórnarlambið.
Fórnarlömb ofbeldis, vita hversu alvarlegar afleiðingar ofbeldið hefur fyrir þau, bæði líkamlega og andlega. Þau hafa um sárt að binda í langan tíma á eftir. Þegar ofbeldismaðurinn og Eiríkur Jónsson ráðast í sameiningu á fórnarlambið í fjölmiðlum, veldur það fórnarlambinu óþarfa sársauka.
Greinin er einnig tilraun til að hafa áhrif á almenningsálitið í von um að árásamaðurinn fái mildan dóm. Einnig er verið að neyta aflsmunar því fórnarlambið er útlendingur og þekkir ekki réttarstöðu sína, þekkir engann sem hjálpar í þessari stöðu, og getur á engan hátt varið sig sjálft.
.-. .-.
/'v'\ /'v'\
(/ \) (/ \)
======="="=='=='="="===-----
Megi Ó-Frjálslyndi flokkurinn hætta að þykjast vera frjálslyndur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli