2006-01-12

Að nytja sorg, harmleiki, skömm, líf og mannorð

Það virðist allt á öðrum endanum í þjóðfélaginu vegna afleiðinga forsíðu Dagblaðsins fyrir nokkrum dögum. Ég hef áður gagnrýnt fréttaflutning Dagblaðsins harðlega, en það er langt síðan. Einhliða fréttaflugningur útvarps, sjónvarps, og dagblaðanna þjónar engum. Það er nauðsynlegt að flytja fréttir. Það er nauðsynlegt að gagnrýna það sem miður fer.
Ég er ekki að sakfella DV, þegar ég segi að blaðið og ábyrgðarmaður þess beri mikla ábyrgð á mannorðsmorði því sem framið var, og dauða mannsins.
Ég ætla heldur ekki að ásaka DV fyrir að hindra réttvísina að störfum með skrifum sínum og heldur ekki fyrir að hindra, að þau fórnarlömb sem blaðið staðhæfði að maðurinn hefði nauðgað, fengju réttláta miskabót.
Ég ætla að saka DV um algjöra siðblindu og takmarkalausa græðgi. Stefna blaðsins og ritstjóra þess er beinhörð notkun á sorg, harmleikjum, skömm, lífi og mannorði þess fólks sem það beinir athygi sinni að. Svona hagar rándýr sér í dýrahjörð.
Stefna blaðsins er ekki upplýsingar í almannaþágu, þósvo að einmitt þetta sé ástæða þess að lögreglan vinni með fjölmiðlum og gefi þeim upplýsingar.
Þetta mál sýnir svo ekki verður um villst að stefna blaðsins er gegn almannahagsmunum. Stefna blaðsins er ekki að upplýsa. Stefnan er að nytja sorg, harmleiki, skömm, líf og mannorð.
Ritstjóri blaðsins hefur áður sagst hafa sannleikann og allann sannleikann. Hann vill hinsvegar ekki útskýra hversvegna hans útgáfa af sannleikanum, samrýmist ekki veruleikanum. Hann telur sig geta sagt allann sannleikann með því að greina frá þeim litla hluta sannleikans sem fellur að stefnu hans og DV. Slíkur maður ætti heldur að fá sér vinnu sem áróðursmeistari í landi sem gefur út einkaleyfi á sannleikann.

1 ummæli:

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Þú mátt alveg hringja ef þú átt leið framhjá símtæki, bara ekki á nóttunni.