Erindi flutt þriðjudag 27. mars 2007 á aðalfundi Félag um Kynlíf og Barneignir á Litlu Brekku, Bankastræti 2 Reykjavík.
Kynning erindis:
Fyrirlesari er Anna Jonna Ármansdóttir og ræðir hún um málefni transgender fólks hér á landi. Í erindi sínu kynnir hún sögu trans hugtaksins frá lækninum og kynfræðingnum Magnus Hirschfeldt á þriðja áratug seinustu aldar, um leiðréttingar á kyni á hvítvoðungum án vitundar eða samþykkis foreldra, eins og þær voru gerðar um miðja seinustu öld og hinsvegar á fullorðnum með þeirra samþykki, og þá siðfræði sem var tengd þessu, og síðan nútímann þar sem það að vera trans er að verða kynpólítískt statement.
Fundarstjóri, Fundargestir, Hvað er trans gender?
Þetta orð er samansett úr latneska orðinu trans sem merkir yfir eða á milli eða breyting og hinsvegar enska orðinu gender sem merkir kynvitund eða kyngerfi.
Nútíma skilgreining á transgender, er að orðið nái yfir alla hópa sem á einn eða annan hátt eru í óhefðbundinni stöðu með kyn sitt. Á íslensku eigum við orð yfir fólk eins og mig sem hefur gengist undir skurðaðgerð til að fá annað líkamlegt kyn og það orð er náskylt skammaryrðinu kynvillingur. Síðan eru það mjög villandi orð eins og klæðskiptingur, við skiptum jú öll um föt, og gegnsæi íslenskrar tungu gerir þetta orð að athlægi. Orðið transgender nær yfir þessa hópa og yfirleitt alla þá hópa sem eru í óhefðbundinni stöðu með kyn sitt.
Hugtakið trans í kynferðislegu sambandi kom fyrst fram hjá þýska lækninum og kynfræðingnum Magnus Hirschfeldt á þriðja áratug seinustu aldar. Hann fann upp latneska orðið trans-vestus yfyr þann atburð þegar fólk klæðist fötum sem fá þau til að líta út sem hitt kynið. Hann var oft kallaður Einsteinn kynfræðinnar. Hann kom fram með hugmyndina um þriðja kynið, og í baráttu sinni fyrir réttindum samkynhneigðra, líkti hann samkynhneigð við fötlun því hann taldi að fólk myndi þó altént finna til með fötluðum.
Hann stofnaði meðal annars Vísinda og Mannúðarnefndina sem árin 1897 og 1898 safnaði fimm þúsund undirskriftum til stuðnings réttindum homma. Nokkrir þeirrra sem skrifuðu undir voru Albert Einstein, Hermann Hesse, Thomas Mann, Rainer Maria Rilke og Leo Tolstoy. Magnus Hirschfeld hafði mikil áhrif á flokkun á sviði kynhvata, því hann var virkur þegar flokkunarfræði kynjafræðinnar var í mótun.
Stofnun hans í Kynfræðum í Þýskalandi átti mikið bókasafn sem varð bókabrennum Nazista að bráð þegar þeir brutust til valda. Hann dó árið 1935.
Þegar vísindamenn höfðu sannað að fóstur verða til við sameiningu eggfrumu og sæðisfrumu, þótti kenning hans um þriðja kynið alveg afsönnuð. Eftir stóð hugtakið trans sem einhverskonar millibilsástand eða sameining kynjanna sem við segjum vera jöfn samtímis því að við segjum þau vera svo gerólík, að þau séu algerlega ósambærileg.
Orðið trans-sexualism var fundið upp af Harry Benjamin. Hann var einnig þjóðverji og þessir menn höfðu þekkst. Benjamin neyddist til að flytja til Bandaríkjanna í byrjun fyrstu heimsstyjaldar og bjó þar síðan. Árið 1948 bað samsstarfsmaður hans Alfred Kinsey hann um að líta á barn sem vildi verða stelpa þrátt fyrir að barnið væri drengur. Móðir þessa barns óskaði eftir aðstoð frekar en að barninu væri ógnað. Hann byrjaði meðferð með kvenhormónum og uppgötvaði að meðferðin hafði RÓANDI ÁHRIF.
Við vitum öll að kvenhormónar hafa ekki róandi áhrif, en í þessum tilfellum er um að ræða sálræn viðbrögð þegar raunverulega er verið að beina líkamanum í þá átt sem nauðsynlegt er fyrir sjúklinginn.
Benjamin og félagar greindu ekki á milli félagslegs kyns, og þeirra líffræðilegu þátta sem kalla má líffræðilegt kyn. Þeir flokkuðu fólk sem fengið hafði leiðréttingu á kyni sem upprunalega kynið sem var orðið gagnstætt kyn. Með þessari flóknu flokkun er fortíðin gerð að nútíð og nútíðin að framtíð og tímaskekkjan er orðin alger.
Á sjötta áratug síðustu aldar, (1950) þróaði teymi sérfræðinga við John Hopkins háskóla undir stjórn sálfræðingsins John Money kenninguna um uppeldi í kynhlutverki.
Kenningin gekk út á að ala börn upp í nýju kynhlutverki eins snemma og auðið er, helst fyrir 18 mánaða aldur, og gera skurðaðgerðir á ungbörnum og jafnvel hvítvoðungum og fá þannig góða stráka og stelpur sem engin efi væri um og væru gagnkynhneigð. Kenningin var að hægt væri að gera hvaða barn að raunverulegri stelpu eða raunverum strák ef líkamar þeirra litu rétt út, nógu snemma, og ef foreldrarnir trúa á aðgerðina til leiðréttingar á kyni.
Þó að þetta teymi hafi mælt með að segja sjúklingum sínum frá þeim aðgerðum sem framkvæmdar voru, varð reyndin sú þegar þessi aðferðafræði var tekin upp um allann heim, að heilbrigðisstofnanir leyndu sjúklinga upplýsingum um hvað hafði verið gert við þau sem hvítvoðunga og ungbörn. Vefsíða Intersex Society of North America, ISNA, er full af dæmum um þetta, en frægasta dæmið er saga Cheryl Chase sem er stofnandi ISNA. Henni hafði alltaf fundis hún vera öðruvísi en aðrar stelpur og fannst að snípur hennar og kynfæri væru allt öðruvísi en á öðrum stelpum. Á þrítugs aldri fékk hún aðgang að sjúkraskýrslum sínum og komst að því að gerðar höfðu verið á henni aðgerðir til leiðréttingar á kyni, og meðal annars var snípur hennar fjarlægður. Hún hafði fæðst með tvíræð kynfæri og þeim hafði verið breytt með aðgerð í þannig að þau litu út eins og venjuleg kvenkynfæri. Hún er lesbía.
Ýmsar sögur þessara sjúklinga, benda til að í mörgum tilfellum hafi aðgerðum verið haldið leyndum bæði fyrir foreldrum og börnum. Þetta er ekki bara siðferðilega rangt, heldur einnig skaðlegt, því fólk sem upplifir að verið er að ljúga að því, hættir að sækja læknismeðferð og fær því afkölkun löngu fyrir aldur fram og ýmis önnur skaðleg einkenni.
Þetta kerfi mismunaði fólki eftir kyni og gerir það enn í dag. Litið er á reðurstærð og virkni hjá drengjum en litið er framhjá kynfæranæmni stúlkna og mest litið til þess hvort þær geti eignast börn.
Strákum sem fæddust með “OF LÍTIÐ TYPPI” var breytt í stelpur jafnvel þó að sýnt væri að þá mætti ala upp sem stráka, án aðgerðar til leiðréttingar á kyni og án hormónameðferðar. Stelpur sem fæddust með of stóran sníp lentu á skurðarborðinu, þar sem heilbrigður vefur var fjarlægður.
Það sem við erum að sjá í dag, er að aðgerðir til leiðréttingar á kyni á fullorðnum einstaklingum, sem óska eftir slíku, og sýna á ótvíræðan hátta að þau þjáist vegna þess kyns sem þau hafa, eru oft ekki veittar. Siðfræðin í þessu er að fólk eigi ekki að ráða kyni sínu sjálft, slíkt gæti verið þjóðfélaginu skaðlegt og jafnvel þeim líka.
Fólk sem lifir í nýju kynhlutverki, eins og til dæmis nokkrar vinkonur mínar sem fæddust drengir, en óska þess af öllu hjarta að verða stelpur og konur, er neytt til að bera karlmannsnafn í allt að áratug, þó þær lifi annars að öllu leyti sem stelpur og konur.
Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að aflétta leynd og skömm af þessum málaflokki, við þurfum að hætta að gera aðaðgerðir sem einstaklingurinn hefur ekki sjálfur óskað eftir, en gefa fólki tækifæri og möguleika til að taka ákvörðun um kyn sitt, þegar það er tilbúið til þess.
Sem foreldri barns sem á einhvern hátt hefur óhefðbundið kyn er erfitt að vita hvað er rétt að gera.
Það er alltof auðvelt að grípa til skurðaðgerðar á barni sem er á milli kynja til að lækna óhamingju foreldranna.
Þau vandamál sem slíkir einstaklingar supplifa, eru fyrst og fremst skömm og áfall, ekki kynáttunarvandi.
Hinsvegar eru þau sem þjást eða hafa þjáðst af kynáttunarvanda, en þau upplifa einnig svipaða skömm og áfall.
Við þurfum að vinna að því að minnka þessa skömm og þessi áföll. Við þurfum að opna umræðuna um þessi mál, taka þau úr felum og vera sýnileg, fyrst og fremst sem manneskjur.
Kæru fundargestir, það er ekkert auðvelt að vera foreldri barns sem er milli kynja, en hjartað segir okkur allt semið þurfum að vita: Við þurfum að elska börnin okkar eins og þau eru, skilyrðislaust.
Þó að ég sé kona nú, var ég aldrei stelpa. Ég er fædd karlkyns og án nokkurra líkamlegra merkja um að ég hafi verið nokkuð annað en venjulegur drengur. Einhverjir lifa í tímaskekkju og lýsa mér sem karlmanni sem er orðin kona, en hið sanna er að ég er kona sem fæddist drengur.
Ég hef einnig orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast barn, og hún er tvímælalaust það besta sem lífið hefur gefið mér. Nú er kominn áratugur síðan ég fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni og samt finnst mér ég alls ekki nógu kvenleg.
Ég hef tekið orðið TRANS til mín. Vel vitandi, að erlendis er það notað sem viðvörun til fólks í kring um mig, það mun einnig verða hér. Umhverfis mig er fólk sem styður transgender fólk gegn skömminni, gegn áföllunum. Úti í þjóðfélaginu er fólk sem styður transgender fólk. Við finnum stuðning á ólíklegustu stöðum. Jafnvel Biskupsstofa virtist taka vel á móti erindi nokkurra nema frá háskólanum á Bifröst um þetta málefni. Ég tel að sú athygli sem það vekur að vera stolt TRANSKONA, muni hjálpa transgender fólki til að nota þetta orð sem kynpólítíska stefnuyfirlýsingu, geng skömminni og gegn áfallinu.
.-. .-.
/'v'\ /'v'\
(/ \) (/ \)
======="="=='=='="="===-----
Megi Ó-Frjálslyndi flokkurinn verða fyrir áfalli og skömm í komandi kosningum.