2006-05-20

Að vera eða ekki vera? Það er spurningin!

Ég var að spá í hvort ég ætti að fara að vera in og blogga: Jég um mig frá mjér til mín. Skrifa jafnvel um hvað ég er að gera, hugsa hvern einasta dag og skreyta það með broskellingum og brosköllum eftir því sem tilfinningar mínar segja til um.

Þetta er hvorki meira né minna en existensíalistisk spursmál ala fyrirsögnina hér að ofan sem Hamlet heitinn lét hafa eftir sér meðan hann rýndi einbeittur í tómar augnatóftirnar í hauskúpu föður síns.

Svo fer maður að velta fyrir sér enn alvarlegri spurningum um til dæmis tilgángi lífsins, og hvað maður vill nota lífið í. Þá minntist ég þess sem Gandálfur hinn grái sagði við Frodo þegar þeir voru villtir í Móríunámum:

Það eina sem við þurfum að ákveða er: Hvernig viljum við nota þann tíma sem okkur er gefinn.

Ég tók þá ákvörðun fyrir mörgum árum síðan að markmið mitt er að minnihlutahópar njóti sömu réttinda og aðrir hlutar þjóðfélagsins. Þetta er jafnréttishugsjónin.

Einhverjum hefði eflaust dottið í hug orðið Bóhem – eins og í kvikmyndinni Moulin Rouge , frelsi, jafnrétti, bræðralag, kærleikur - en það er of stórt fyrir mig. Þá er það frekar John Lennon sem ég hallast að því lífsspeki hans er einkar einföld eins og það kemur fram í einum af texta hans Beautiful Boy: “Life is what happens to you while you're busy making other plans”. Áætlanir okkar verða að innihalda líf okkar og annarra í kringum okkur. Annars standast þær einfaldlega ekki.


Hér eru svo ein broskelling :) og einn broskall :) til að skreyta þetta. Njótið vel, það verður langt í næsta jég um mig frá mjér til mín.


Engin ummæli: