2008-03-24

Fljúgandi Gítar

Oft hefur gítar verið með í för minni milli Færeyja og Íslands. Aftur og aftur hefur maðurinn minn tekið gítarinn með sem handfarangur því annars má reikna með að hann eyðileggist á leiðinni, ef hann er í mjúkri tösku. Fyrir um ári síðan, keypti hann sér harða tösku undir gítarinn og síðan hefur hann verið tekinn sem venjulegur farangur með hinum töskunum.

Við mættum með farangurinn á Reykjavíkurflugvöll kl 12:50 en vélin átti að fara af stað um kl 13:30. Hann benti mér fljótlega á að fyrir framan okkur í röðinni voru Eivør og Jón Tyril með farangur og hljóðfæri. “Hún verður að fá að taka þetta sem handfarangur” sagði ég. Hann leit á mig og samsinnti. Við fylgdumst vel með þegar kom að því að afhenda farangurinn. Þau áttu í nokkrum samræðum við starfsfólkið, og loks afhenti hún gítarinn sinn, sem var í mjúkri tösku. Hann var settur á færibandið með stórum og þungum töskum.


Röðin kom að honum og brátt var búið að afhenda farangur og ganga frá farmiða. Þau stóðu stutt frá okkur, og ég stóðst ekki mátið, heldur gekk til þeirra og spurði Eivøru á færeysku hvort henni hefði verið neitað um að taka gítarinn sinn með sem handfarangur. "Já, ég mátti ekki taka hann með. Það eru komnar nýjar reglur.” Maðurinn minn spurði hana hvort þetta hafi verið dýr gítar, og hún kinkaði kolli. Við ræddum um meðferðina á farangrinum og hversu viðkvæm þessi hljóðfæri eru. Eivør var nokkuð viss um að ef gítarinn skemmdist, fengi hún það ekki bætt. Síðan skildu leiðir og hún kinkaði kolli í kveðjuskyni.

Maðurinn minn taldi að þetta væri allt öðruvísi en hjá Atlantic Airways, þrátt fyrir að ferðin væri á vegum þessa flugfélags. Mér fannst þetta ástand alveg ótækt og sagði við manninn minn að ég ætlaði að ræða aðeins við starfsfólkið sem stóð þarna við afgreiðsluborðið. Á meðan ég gekk þau tíu skref sem voru að afgreiðsluborðinu, ákvað ég að nefna fyrst gítar Eivørar, síðan gítar mansins míns og mjúku töskuna sem hann notaði einu sinni en er nú farinn að nota harða tösku. Hann tók gítarinn áður sem handfarangur en ekki nú. Síðan aftur í gítar Eivørar, og hversu dýrmætur hann er fyrir hana. Að sjálfsögðu nefndi ég ekki að hún hafði skilið hörðu töskuna eftir í Færeyjum.

Í ljós kom, að Atlantic Airways höfðu hert reglur um handfarangur fyrir um mánuði síðan og að starfsfólkið var bara að fylgja þeim reglum sem þeim voru settar. Starfsfólkið var sammála mér í því að hún hefði greinilega fengið að taka gítarinn með sem handfarangur frá Færeyjum, og því væri Atlantic Airways ekki að fylgja eigin reglum. En svona voru reglurnar og því ekkert að gera. Ég brosti í kveðjuskyni og kinkaði kolli til starfsfólksins. Síðan bar þar að öryggisvörð flugvallarins og við þekktumst frá fyrra starfi. Ég vinkaði henni, heilsaði og kvaddi allt í senn.

Það var erfitt að kveðja manninn minn og stutt í tárin. Honum er illa við að kyssast á opinberum stöðum og vildi helst kveðja mig stuttlega. Hann fékk ekki að ráða. Eftir að hafa kvaðst tvisvar kvöddumst við innilega í inngangi flugstöðvarinnar.

Ég var rétt búin að leggja bílnum við vinnuna mína hjá Háskólabíói, þegar maðurinn minn hringdi í mig. “Þau létu Eivøru fá gítarinn aftur!” Hrifningin í rödd hans var greinileg og ég hló af gleði. Hann var á leiðinni út í flugvélina og fannst að ég yrði að fá að vita þetta, þar sem ég ætti líklega einhvern þátt í þessu. Við kvöddumst aftur og ég hugsaði hlýlega til starfsfólksins á flugvellinum og til öryggisvarðarins sem líklega átti sinn þátt í þessu. Nú ætlaði ég að hlusta aftur á flövuna Mannabarn eftir Eivøru.

Engin ummæli: