Rétt fyrir jólin 1948 gerðist sá hörmungaratburður að snjóflóð féll á bæ í Goðdal á Ströndum. Þarna stóðu 2 bæir og bjó skyldfólk mitt þar með sínar ær og kýr. Þessu fólki hefur varla verið fisjað saman því Goðdalur var harðbýll samanber lýsingu Árna Magnússonar á landsins gæðum. Fyrr á öldum hafði fólk dáið drottni sínum úr hungri í þessum dal.
Upphaflega hafði langafi minn Kristmundur búið á bænum í Goðdal. Hann nýtti jarðhitan á svæðinu til að veita hita inn í bæinn. Hann varð einn af þeim íslendingum sem fékk viðurkenningu frá Konungi á fyrsta hluta 20. aldar fyrir framtakssemi.
Ömmubróðir minn, Jóhann og kona hans ákváðu að byggja sér nýtt steinhús í nágrenni við bæ langafa. Lítið vissu þau um snjóflóðahættu í þessum fallega dal með bröttum fjallshlíðum. Mikil snjókoma hafði verið um allt vesturland. Á baksíðu Morgunblaðsins þann 14. desember 1948 er grein um mikin veðurofsa á vestfjörðum og að símasamband hafi rofnað víða, þar á meðal á vestfjörðum.
Greinilegt var að fólkið í Goðdal skorti lítið og fleiri af börnum Jóhanns sóttu framhaldsskóla langt frá heimili sínu. Einmitt þetta varð til að bjarga lífi þessara barna þennan örlagaríka dag. Um kl 18 Sunnudag þann 12. desember féll snjóflóð á bæ Jóhanns og eyðilagði hann. Símalínur höfðu víða slitnað og því þótti ekki óeðlilegt að ekkert samband væri við Goðdal.
Maður sem gekk með póst til Goðdals 4 dögum seinna var sá fyrsti sem sá hvað hafði gerst og sendi eftir hjálp. Jóhann bóndi var enn á lífi eftir þessa 4 daga en mikið kalinn á höndum og fótum og missti hann fæturna. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins þann 19. desember 1948 á bls. 1 og 2 lifðu nokkur af börnunum nokkurn tíma eftir flóðið, en dóu áður en björgun kom. Um tveimur árum seinna tók hann líf sitt og Goðdalur lagðist í eyði.
Sé litið í ættfræðibækur virðist sem börnin hafi ekki látist samstundis heldur nokkrum dögum seinna. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvílíkar þjáningar þau hafa þolað. Þekking á sálfræði var mjög takmörkuð þá og því lítið vitað um hvort Jóhann hafi brugðist við eins og svo margir aðrir sem lifa stórslys af, en hafa mikla sektarkennd vegna þess að þau lifðu af.
Móðuramma mín, Ingibjörg Kristmundsdóttir sem var ljósmóðir, bjó um lík bróður síns og fjölskyldu hans. Hún lagði af stað í gönguferð sem er um 17,5 km á lengd (sjá rauða línu á korti) , yfir fjöll, hálsa og heiðar. Meðal hæðin þarna er um ca 200 m yfir sjávarmáli hæst um 400 m. Áætla má að raunveruleg vegalengd sé um 25 km vegna halla upp og niður. Líklegt er að nokkur snjór hafi verið á leiðinni. Má því ætla að þetta hafi verið erfið dagleið í kulda og slæmri færð fyrir konu sem er ólétt og komin þrjá mánuði á leið. Hún talaði sjaldan um þetta.
Um fjörutíu árum seinna þegar við minntumst á þetta og hún talaði um þetta, var greinilegt að hana langaði ekki að tala mikið um þetta. Þó að ég sé forvitin að eðlisfari vildi ég ekki spyrja hana nánar því ég heyrði og sá á henni að þetta hafði verið mjög mikið trauma fyrir hana.
Þrátt fyrir að snjóflóðið hafi valdið miklum harmleik, sýndu þau sem lifðu af mikinn styrk. Nokkur barna Jóhanns urðu til dæmis hámenntuð og amma náði 99 ára aldri. Rétt eins og langafi minn og langamma í Goðdal sigruðust á erfiðleikum, sigruðust afkomendur þeirrra einnig á erfiðleikum.
Mig langar að minnast þessa fólks og ömmu minnar með því að ganga sömu leið og hún gekk. Ég ætla að fara fyrstu gönguna sumarið 2006. Vinum og vandamönnum er velkomið að slást með í förina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli