2010-11-20

Minningardagur Transfólks

Í yfir 140 löndum er hinn 20. nóvember tileinkaður minningu þess fólks sem var drepið vegna and-transgender haturs eða fordóma. Á alþjóðlega vísu hefur þessi dagur fengið nafnið TDOR ( Transgender Day Of Rememberance ) . Atburðurinn er haldinn í nóvember til heiðurs Rita Hester, en morðið á henni sem framið var 28. Nóv 1998 varð upphafið að vefverkefninu "Remembering Our Dead" og í San Francisco var kertaljósvaka árið 1999. Eins og flest morðmál gegn transgender, hefur morðið á Ritu Hester ekki enn verið leyst.

Í umræðunni um kreppuna kom oft fram það sjónarmið, að talað skyldi gætilega um kreppuna, að aðgát skyldi höfð í nærveru sálar. Í umfjöllun fjölmiðla um morðið á Ritu var ekki höfð mikil aðgát í nærveru sálna. Mörgum vina hennar sárnaði það virðingarleysi sem lífi hennar var sýnt með því að gera að engu kynhlutverk hennar sem hún hafði lifað í, tíu ár á undan. Verkið sem morðinginn hóf, með því að eyða lífi hennar vegna þess að hún vildi lifa sem kona, ljúka fjölmiðlar með því að eyða minningu hennar sem konu.

Tilgangur Minningardags Transfólks, er að vekja athygli almennings á hatursglæpum gegn transfólki, nokkuð sem fjölmiðlar standa sig illa í. Ekki eru öll þau endilega transgender, sem minnst er á Minningardegi Transfólks, heldur voru þau fórnarlömb ofbeldis sem beint er gegn transfólki. Oftast gerir umfjöllun um þessa glæpi lítið úr fórnarlömbunum og hatrinu gegn þeim. Morðingjarnir fremja glæp sinn til að eyða fórnarlömbunum og til að auðmýkja minningu þeirra og eyða henni.

Sú réttláta reiði sem við finnum þegar við lesum um glæpina gegn transfólki þarf að umbreytast í fyrirgefningu glæpsins og blessun á minningu fórnarlambsins því þannig vinnur kærleikurinn á hatrinu.

Til að halda minningu fórnarlambanna á lofti og heiðra þau, er mikilvægt að Minningardagur Transfólks sé skýrt aðgreinur frá öðrum atburðum. Með því að koma saman, syrgjum við og heiðrum líf þessara látnu systra okkar og bræðra. Þetta gerum við ekki síst fyrir okkur sjálf, því við vitum aldrei hvaða manneskja verður næsta fórnarlamb hatursins.

“Á síðasta áratug, hafa látist meira en ein manneskja á mánuði vegna haturs eða fordóma gagnvart transfólki, án tillits til annarra þátta í lífi þeirra. Ekkert dregur úr þessari tilhneigingu.” [ Gwendolyn Ann Smith (2008) http://www.gender.org/remember/day/what.html ]

Samkvæmt Gwendolyn virðist morðtíðnin ekki vera minnkandi. Þar sem transfólk er aðeins um 10 til 30 af hverjum 100 þúsund íbúum er gagnslaust að bera morðtíðnina beinlínis saman við morðtíðni venjulegs almennings. Raunhæfara er að bera morðtíðnina við raunverulegan fjölda transfólks. Þá kemur í ljós að morðtíðnin er einhversstaðar á milli 26 og 90 fyrir hvert 100 þúsund transfólk á hverju ári (Anna Jonna Ármannsdóttir 2008) .

Til samanburðar má geta að hæsta morðtíðni í löndunum heims er milli 50 og 60 manns af hverjum 100 þúsund á ári samkvæmt Ráðuneyti Sameinuðu Þjóðanna gegn Eiturlyfjum og Glæpum (2010 a) eins og sést á meðfylgjandi mynd.

(UNODC, 2010 a, pp. 23).

Þannig má álykta að transfólk í Bandaríkjunum sé í álíka mikilli hættu og almenningur í þeim löndum sem hafa hæstu morðtíðni í heimi.

Tilsvarandi mynd morðtíðni á fjórum svæðum en Brasilía er tekin fyrir sérstaklega vegna þess að ein af hverjum 2000 transmanneskjum er drepin í því landi.
Myndir sýnir þróunina síðustu 2 árin og að morðtíðnin á transfólki í Evrópu og Bandaríkjunum, sé á svipuðum stað og morðtíðnin á venjulegum almenningi í hættulegustu löndum heims.

Mikilvægt er að hafa í huga að verið er að bera saman epli og appelsínur, því þarna er annarsvegar um að ræða minnihlutahóp sem sætir ofbeldi meirihlutans, og hinsvegar heilar þjóðir í þríhyrningnum í Mið Ameríku, þar sem skipulögð glæpastarfsemi og ólögleg viðskipti með aðallega heróín og kókaín veldur gríðarlegu mannfalli. (UNODC, 2010 a, pp 55).

Niðurstöður áðurnefnds Ráðuneytis SÞ er :

This paper has illustrated the ways that transnational organized crime is both a symptom and a cause of instability in a diverse range of regions around the world. Both organized crime and insurgency undermine the rule of law. (UNODC, United Nations Office on Drugs and Crime. 2010., pp 55).

To deal comprehensively with these intractable and interlinked issues, there can be no substitute for coordinated international action. (UNODC, United Nations Office on Drugs and Crime. 2010, pp 55)).

Niðurstöður SÞ er með öðrum orðum að skipulögð alþjóðleg glæpastarfsemi valdi óstöðugleika og grafi undan réttaröryggi. Til að takast á við þennan vanda, sé enginn annar kostur en alþjóðlega samhæfðar aðgerðir.

Í ljósi þess hve alvarlegum augum áðurnefnt Ráðuneyti S.Þ. lítur á afleiðingar alþjóðlegrar glæpastarfsemi, er hrópandi mótsögn það aðgerðaleysi sem viðgengst þegar um er að ræða morð á transfólki.

Svo virðist sem að glæpirnir haldi áfram svo lengi sem hatrið og fordómarnir gegn transfólki fá að þrífast. En það fá þeir eingöngu að gera svo lengi sem almenningur veit ekki af þeim og umfjöllun fjölmiðla auðmýkir minningu fórnarlambsins.

Höfundur: Anna Jonna Ármannsdóttir


Heimildir:

Ármannsdóttir, A. J. (2008, November 19). Tölfræði yfir morð á Transfólki. Hvað er hægt að gera við því? blog, . Sótt 20. nóv, 2010, from http://annajonna.blogspot.com/2008/11/tlfri-yfir-mor-transflki.html


UNODC, United Nations Office on Drugs and Crime. (2010 a). Crime and instability: case studies of transnational threats. UNODC, United Nations Office on Drugs and Crime. Sótt 20. nóv. 2010 af http://www.unodc.org/documents/data-and-analysis/Studies/Crime_and_instability_2010_final_26march.pdf


UNODC, United Nations Office on Drugs and Crime. (2010 b). Homicide Statistics, Criminal Justice Sources - Latest available year (2003-2008). United Nations Office on Drugs and Crime. Sótt 20. nóvember, 2010, from http://www.unodc.org/documents/data-and-analysis/Crime-statistics/Criminal_justice_latest_year_by_country.20100201.xls


Dan Frosch (2008), New York Times, “Death of a Transgender Woman Is Called a Hate Crime” . Sótt 25. nóv. 2008 af http://www.nytimes.com/2008/08/02/us/02murder.html?ref=us

Gwendolyn Ann Smith (2008), “9th Annual Transgender Day Of Remembrance” . Sótt 25. nóv. 2008 af http://www.gender.org/remember/day/


James Alan Fox, Marianne W. Zawitz (2008), U.S Department Of Justice, Office Of Justice Programs, Bureau Of Justice Statistics, Sótt 25. nóv. 2008 af http://www.ojp.usdoj.gov/bjs/homicide/hmrt.htm


2009-08-10

Hér er margt að ugga … öfug … ugga

Sýning Listahópsins Maddýar, er sýning sem áhorfandur taka þátt í og ramba inn í hvern heiminn á fætur öðrum. Stundum er eins og áhorfandinn sé að upplifa minningar annars fólks. Aðferðirnar eru áhrifaríkar og gera áhorfendur að þáttakendum sem þurfa að setja sig í spor annars fólks.

Ég upplifði aftur og aftur að sem áhorfandi var ég ein á sviðinu og áhorfandi að eigin sviðssetningu. Viðbrögð annarra áhorfanda eru einnig minnisstæð. Í dimmum kyndiklefa með ýmsum ryðguðum vélum stendur við hlið mér áhugaljósmyndari og mundar myndavélina eins og hún sé að mynda villt dýr í frumskógi rygðaðra röra og vélahluta. “Það er nakinn maður þarna inni. Hann kemur bráðum fram.” Eitt augnablik efaðist ég um hvort hún væri áhorfandi eða leikandi í sýningunni.

Í litlu þvottaherbergi situr ungur maður og segir sögu úr æsku sinni. Þvottasnúrur fullar af myndum frá æsku þessa unga manns. Þegar sögunni lýkur kemur í ljós að konan sem stendur við hlið mér er mamma hans. Hann segir söguna af ótrúlegri sannfæringu. Það er eins og að hann hafi í raun upplifað það sem hann segir frá. Það eina sem fær mig til að efast um söguna, er að ég veit að hún er sviðssett.

Móðirin svarar unga manninum af sömu sannfæringu, þegar hann spyr hvað henni finnist. Veruleikinn er óþægilega fljótandi. Til að grípa í eitthvað fast horfi ég á myndirnar úr æsku unga mannsins. “Þetta er alveg ótrúlega líkt þér” segi ég. “Já, þetta er mynd af mér” segir hann. Ég brosi vandræðalega og það rennur upp fyrir mér að sannleikurinn er oft ótrúlegri en uppspuni. Þegar sannleikurinn er sviðssettur eins og um uppspuna sé að ræða, getur venjulegt fólk verið algerlega sannfærandi.


Listasýningin er frábærlega öðruvísi og ögrandi. Í minningunni er hún eins og draumur annars fólks sem mig dreymdi ekki.

Aðgangur er ókeypis og athugið að mögulegt er að koma og fara að vild.

Síðasta sýning í Austurbæjarbíói í dag klukkan 18:00 til 20:002009-04-16

Orðræða um Transfólk

Ræða flutt á fundi TÍ. 1. apríl 2009


Orðræða um Transfólk


Góðu gestir, áheyrendur, vinir, og vinkonur,

það er löngu tímabært að við förum að ræða hvernig við tölum og hugsum um okkur sjálf og hvernig aðrir gera það.

Við getum auðvitað stundað einhverskonar skotgrafahernað, þar sem við ráðumst strax á hvern þann sem talar á niðrandi hátt um transgender fólk. Vi gætum t.d. fordæmt hvernig litríka pressan fjallar um transfólk. Þar er orðræðan eins og orðræðan var um kynvillinga var fyrir fleiri áratugum síðan. Við gætum rætt þetta út frá þeirri staðreynd að ákveðnir fjölmiðlar nota vald orðræðunnar til að lítillækka okkur sem minnihlutahóp. Staðan er þá sú, að aðili með mikil völd beitir sér gegn minnihlutahópnum.

Orðræða okkar verður þá svar okkar gegn valdbeitingunni og sagan hefur kennt okkur að svar við valdbeitingu, er valdbeiting. Í besta falli verður það valdbeiting án ofbeldis eins og Ghandi kenndi heiminum.

Ég held að það sé miklu betra að horfast í augu og ræða um þetta á jafningjagrundvelli og byrja á okkur sjálfum.

Valdbeiting í Orðræðu (Discursive abuse of power)


Það er þekkt meðal minnihlutahópa að þeir nota innbyrðis þau orð sem þau vilja ekki að fólk noti utan þeirra hóps. Afrískir bandaríkjamenn kalla hvern annann NIGGARA á góðlátlegan hátt. Gyðingar segja öðrum gyðingum forherta júðabrandara. Það kemur einngi fyrir í gríni og í gamni að einhver hommin kallar einhverna annan hommann fyirr kynvilling. Í öllum þessum tilfellum er ekki um að ræða valdamikinn aðila sem beitir sér gegn minnihlutahópnum eða gegn einstaklingnum. Þarna er í raun verið að gera valdbeitinguna sýnilega, með því að nota orðið án valdbeitingar.


Sá eða sú sem hefði opinberlega kallað núverandi forseta Bandaríkjanna fyrir niggara eða núverandi forsætisráðherra Íslands fyrir kynvilling eða kallað forsætisráðherra Ísraels fyrir júða, hefði stimplað sig inn í söguna sem kreddumaður, sem fordómamaður, sem þröngsýnismaður og sem ofstækismaður.

Valdbeiting í orðræðu gegn þessum minnihlutum er einfaldlega fordæmd á flestum vestrænum menningarsvæðum. Valdbeiting í orðræðu er hinsvegar ekki fordæmd í sjálfu sér. Þegar um er að ræða minnihlutahópa sem af einhverjum sökum ekki eiga upp á opinbert pallborð, virðist vera viðeigandi að beita þá valdi í orðræðu. Sem dæmi má nefna minnihlutahópana auðmenn og útrásarvíkinga. Á vissum menningarsvæðum eru samkynhneigðir ekki taldir eiga upp á pallborðið og kemur það skýrast fram í valdbeitingu í orðræðu um samkynhneigða.


Falin Valdbeiting í Orðræðu

Á tímum þrælahalds í Bandaríkjunum og þeirrar valdbeitingar sem þrælahald er í raun, þótti sjálfsagt og eðlilegt að kalla fólk “niggara”. Þetta var einfaldlega það orð sem valdastéttin vildi nota um þessháttar fólk. Valdastéttin taldi þetta vera góða og gilda málnotkun. Valdbeitingin í orðræðu var falin með því að gera orðið að ómissandi hluta af tungumálinu. Einnig var valdbeiting svo miklu meiri á öðrum sviðum, t.d. félagslega og réttarlega að fólk varð blint fyrir valdbeitingu í orðræðu.

Svo virðist sem að vissum aðilum þyki sjálfsagt og eðlilegt að kalla fólk kynvillinga, kynskiptinga og klæðskiptinga með þeim rökum að slíkt sé góð og gild málnotkun.

Þannig er valdbeitingin falin bak við góðan ásetning. Röksemdin virðist vera sú, að góður ásetningur hljóti að réttlæta valdbeitinguna. Gallinn við þá röksemd er að góð og gild málnotkun er möguleg án valdbeitingar.

Sem dæmi um góða og gilda málnotkun án niðrandi orðalags, má nefna fyrirspurn háttvirts þingmanns Guðrúnar Ögmundsdóttur dagsett 18. janúar 2007 til háttvirts forsætisráðherra fyrrverandi, Geirs Haarde, ásamt svari hans.


Villingar og skiptingar nútímans

Þegar kemur að orðunum kynvillingur, kynskiptingur og klæðskiptingur, sést töluverður munur á notkun orðanna. Hið svokallaða fjórða ríkisvald er svotil alveg hætt að nota orðið kynvillingur enda þykir það ekki lengur góð latína. Hinsvegar virðist það hafa sérstakt dálæti á orðunum kynskiptingur og klæðskiptingur.

Á bloggi mínu skrifaði ég í janúar 2007 um Umskiptinga Íslenskrar Tungu.

Eftir umfjöllun um orðið hamskipti sem er gott og gilt íslenskt orð, skrifaði ég meðal annars eftirfarandi setningu:

Nafnorðið hamskipti (en: n: metamorphosis, v: metamorphose) er eitt af upprunalegum orðum íslenskrar tungu, en eins og ofannefndar heimildir sýna er orðið hamskiptingur ónauðsynlegt. Vert er að taka eftir að öll orð sem enda á -skiptingur lýsa eiginleikum sem liggja utan þess sem eðlilegt getur talist.
Við notum orðið trans og merkingarlega er það tilvísun enska orðið transgender. Merkingin er alþjóðleg, og orðið er upprunalega latína og merkir yfir eða þverun. Til eru yfir 20 íslensk fyrirtæki í fyrirtækjaskrá íslands sem bera þetta orð í nafni sínu. Einnig má nefna orðið transfitusýra og er þar komið íslenskt efnafræðilegtheiti á sérstakri fitusýru.
Í efnafræðinni eru notuð hugtökin cis og trans sem andstæður. Í alþjóðlegri orðræðu transfólks, er talað um císfólk en það er fólk sem ekki er transfólk. Það er alveg ljóst að orðið trans var hluti af íslenskri tungu áður en transgender fólk tók það til sín.

Íslensk orð um efnið

Hugtakið transgender spannar stóran hóp fólks sem hefur það eitt sameiginlegt að vera í óhefðbundinni stöðu með kyn sitt. Sum þeirra fá aðgerð til leiðréttingar á kyni.
Við Jóna Ingibjörg vorum að ræða á fésbókinni orðanotkun fyrir orðið gender og skyld orð. Ég skrifaði meðal annars eftirfarandi:
Sæl Jóna,
má ég sýna þér litla grein sem ég var að skrifa í gærkvöldi og í nótt, en þar eru notuð orð sem eru náskyld nýyrðinu þínu: kynverund. Ég nota tvö orð yfir gender allt efti því í hvaða merkingu það er. Oriðn eru kyngervi og kynvitund. Kynsemd sá ég hjá landlæknisembættinu.
Hvað finnst þér?
og hún svaraði og skrifaði þetta:
Kyngervi = gender (hvaða kyn við sýnum út á við)
Kynímynd=kynvitund=kynsemd = gender identity (hvaða kyn við samsömum okkur með huglægt/tilfinningalega)
Kynferði = physical gender
og er ég lýsti áhuga mínum á betra orði fyrir gender, skrifaði hún þetta:
Ég hef aldrei verið hrifin af orðinu kyngervi, hér áður var talað um félagsleg kynhlutverk, þ.e.a.s. þá hegðun og hlutverk sem er félagslega áskapað. Við höfum okkar kyn-ferði, sem er líffræðilega kynið. Svo höfum við hið félagslega kyn, það sem sést út á við. Það vantar eitthvað skemmtilegt og ögrandi heiti hér, er sammála því en á meðan er kyngervi einn möguleiki því kyngervi breytast stöðugt.
Kæru áheyrendur, það er alveg ljóst að íslensk tunga er í mikilli þróun á þessu sviði. Það skiptir öllu máli hvernig hvert okkar notar málið. Í þessu sambandi langar mig að minna á nýlega auglýsingu þar sem ung stúlka les ljóð Þórarins Eldjárns:
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´ og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.
Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn nema ég og þú.

Góðu vinir og vinkonur: það gera vonandi fleiri en bara ég og þú.

2009-03-25

Fjölbreytni

Fjölbreytni

Spurning:

Ef karlar eru frá Mars og konur eru frá Venus, hvaðan ert þú þá?

Svar:

Þú ert frá lifandi plánetunni Jörðinni, sem er á milli þessara tveggja

lífvana pláneta.


Þekkingu mankyns hefur fleygt mikið fram síðan jörðin var talin vera flöt. Í dag vitum við töluvert um kynjafræði sem við vissum ekki fyrir hálfri öld.


Við vitum að líkamlegt kyn er ekki bara einn þáttur heldur fleiri. Helstu þættir líkamlegs kyns eru kynfæri, hormónastarfsemi, kynlitningar og nýrri rannsóknir sýna mismun á vissum hluta heilans eftir kyni.


Við vitum að líkamlegt kyn einhvers segir ekki til um hvoru kyninu hann mun hneigjast að. Við vitum einnig að kynfæri og kynvitund fylgjast stundum ekki að. Einnig vitum við litningar og kyngervi (en: physical gender ) fylgist stundum ekki að. Einnig er þekkt að kynsemd (en: gender identity) getur verið gagnstæð mörgum líkamlegum þáttum og einnig kynvitund (en: gender) . Vísindamenn vinna að rannskóknum á hvernig kynvitund tengist líkamlegum þáttum í heilanum, en ennþá hafa ekki fengist einhlít svör.


Þarna eru nefndir 6 þættir sem í sameiningu ákvarða kyn fólks. Ekki allir eru svo heppnir að sérhver af þessum kynákvarðandi þáttum, bendi allir á sama kyn. Ef kynsemd (en: gender identity) og kynfæri benda ekki til sama kyns, er það í læknisfræði kallað Gender Identity Disorder sem sumir kalla kynsemdarröskun eða kynáttunarvanda.


Staðalímyndir karla og kvenna sem andstæður, eru óraunhæfar. Sem hugmyndir eru þær jafn líflausar og pláneturnar Venus og Mars. Flest mannleg samfélög eru skipulögð samkvæmt þeirri tvíhyggju sem grundvallartvískipting kynsins er. Flest samfélög hafa stífa lagalega skilgreining á kyni sem einu af tveimur óbreytilegum andstæðum. Þessi tvíhyggja svarar ekki til raunveruleika mannlífsins.


  • Athugun á hvaða hópi fólks sem er, sýnir að líkamsútlit er ekki bara mismunandi samsvörun við þessar staðalímyndir, heldur sýnir slík athugun fjöldann allann af líkamsútliti.

  • Á því grunvallarstigi sem talið er vera litningakyn fólks, hafa erfðavísarnir í einni af hverjum 500 manneskjum, aðra kjarngerð en xx eða xy.

  • Eitt af hverjum 200 börnum er tvírætt á augljósustu birtingu kyns þess, sem eru ytri kynfæri þess. Hjá einu af hverjum 1000 börnum er frávikið það mikið, að læknar grípa til aðgerða til að leiðrétta það.

  • Þau félagslegu og tilfinningalegu einkenni sem við tileinkum körlum og konum, eru ekki strangt aðskilin, heldur eru þau eins og litróf frá raunsæi til innsæis, frá innhverfu til úthverfu og frá æðruleysi til viðkvæmni.


Í besta falli má sýna fram á tölfræðilegt samhengi við gefna skilgreiningu kynsins. Samtímis hefur skilgreiningin margar undantekningar.

Skipun samfélaga

Fólk skipar sér í samfélög samkvæmt samningi þess samfélags. Slíkur samningur getur t.d. verið stjórnarskrá, félagslög eða einhverskonar samkomulag. Innifalið í slíkum samningi eru alltaf reglur um útilokun úr samfélaginu og um réttarfar samfélagsins. Samfélagið hefur þannig rétt til að taka réttlátar ákvarðanir varðandi fólk, en ákvarðanirnar eru takmarkaðar af samningnum við fólkið og einnig af samningum við önnur samfélög.

Stjórntæki samfélaga

Staðalímyndir karla og kvenna eru stjórntæki fábreytninnar til að stjórna fjölbreytninni.


Gagnvart þeim fjölbreytileika sem er til í raun, er stíf aðgreining kynjanna bæði grimm og ónáttúruleg. Stíf aðgreining var einnig fundin upp í Suður Afríku, til að skilja að kynþætti í samræmi við kynþátta-aðskilnaðarstefnu þáverandi stjórnvalda. Þannig hélst við kerfisbundin mismunun.

Það er mótsagnakennt, að meðan við fyrirlítum að aðskilnaðarstefnu sé beitt gegn kynþáttum, beitum við aðskilnaðarstefnu gegn kyninu, af mestu ánægju.

2008-11-19

Tölfræði yfir morð á Transfólki

Af hverjum 100 þúsund manns eru milli 3 og 10 transgender. Þetta merkir að af þeim 300 milljón manns í Bandaríkjunum, eru milli 9 og 30 þúsund transfólk í allt.


Af þessum eru um það bil 8 transkonur og transmenn myrt á hverju ári í Bandaríkjunum einvörðungu.

[ http://www.gender.org/remember/day/who.html ]

Þetta svarar til morðtíðnar sem er milli 26 og 90 fyrir hvert 100 þúsund transfólk. Áætlað meðaltal yrði 58 transfólk fyrir hvert 100 þúsund transfólk.


Til samanburðar, er árleg morðtíðni í Bandarísku samfélagi 5,5 menn af hverjum 100 þúsund manneskjum.

Svart fólk er 6 sinnum líklegri til að verða myrt borið saman við kákasískt fólk.

[ http://www.ojp.usdoj.gov/bjs/homicide/tables/totalstab.htm ]


Miðað við Bandarískan almenning er transfólk í Bandaríkjunum 10 sinnum líklegra til að verða myrt.


2008-09-24

Little truth about a queen

I have been wondering about a film about the
filipinese Raquela

Those that have some ideas about the film,
and which I definitely recommend are:

Sass Rogando

Her wrintings about the film

The IMDB database about the film.
http://www.imdb.com/

Marketet as a Cinderella story on M Comet and on Star Mo Meter

See trailer:
http://www.hollywood.com/trailer/The_Amazing_Truth_About_Queen_Raquela/5303945

Hopefully others will also have some opinions on this flilm.

2008-09-19

Svolítill sannleikur um Drottningu

Ég hef verið að velta fyrir mér kvikmynd um
hina filipeysku Raquelu.

Þau sem hafa gert sér hugmyndir um hana og
sem ég mæli eindregið með eru:

Sass Rogando

Skrif hennar um kvikmyndina

IMDB Gangagrunnurinn um kvikmyndina.
http://www.imdb.com/

Markaðssett sem Öskubuska á M Comet og á Star Mo Meter

Sjá trailer:
http://www.hollywood.com/trailer/The_Amazing_Truth_About_Queen_Raquela/5303945

Vonandi munu einnig aðrir gera sér hugmyndir um þessa
kvikmynd.

2008-08-20

hver er kominn í undanúrslit?

Þó ég óski Íslenska karlalandsliðinu í Handbolta til hamingju með að vera komið í undanúrslit, er ég pirruð vegna ummæla þularins í íslenska sjónvarpinu sem sagði orðrétt:
Við erum komnir í undanúrslit
og átti þannig við íslensku karlþjóðina.

Þannig útilokaði hann þann helming íslensku þjóðarinnar sem er kvenkyns. Það er einmitt svona hlutir sem gera að jafnrétti er ekki raunin í íslensku þjóðfélagi. Það sem verra er: Konur eru meðvirkar í þessu og finnst þetta alveg sjálfsagt. ÞAÐ FINNST MÉR EKKI!
Eftir 30 ára misheppnaða jafnréttisbaráttu, er kominn tími til að konur byrji að standa með sjálfum sér!

2008-03-24

Fljúgandi Gítar

Oft hefur gítar verið með í för minni milli Færeyja og Íslands. Aftur og aftur hefur maðurinn minn tekið gítarinn með sem handfarangur því annars má reikna með að hann eyðileggist á leiðinni, ef hann er í mjúkri tösku. Fyrir um ári síðan, keypti hann sér harða tösku undir gítarinn og síðan hefur hann verið tekinn sem venjulegur farangur með hinum töskunum.

Við mættum með farangurinn á Reykjavíkurflugvöll kl 12:50 en vélin átti að fara af stað um kl 13:30. Hann benti mér fljótlega á að fyrir framan okkur í röðinni voru Eivør og Jón Tyril með farangur og hljóðfæri. “Hún verður að fá að taka þetta sem handfarangur” sagði ég. Hann leit á mig og samsinnti. Við fylgdumst vel með þegar kom að því að afhenda farangurinn. Þau áttu í nokkrum samræðum við starfsfólkið, og loks afhenti hún gítarinn sinn, sem var í mjúkri tösku. Hann var settur á færibandið með stórum og þungum töskum.


Röðin kom að honum og brátt var búið að afhenda farangur og ganga frá farmiða. Þau stóðu stutt frá okkur, og ég stóðst ekki mátið, heldur gekk til þeirra og spurði Eivøru á færeysku hvort henni hefði verið neitað um að taka gítarinn sinn með sem handfarangur. "Já, ég mátti ekki taka hann með. Það eru komnar nýjar reglur.” Maðurinn minn spurði hana hvort þetta hafi verið dýr gítar, og hún kinkaði kolli. Við ræddum um meðferðina á farangrinum og hversu viðkvæm þessi hljóðfæri eru. Eivør var nokkuð viss um að ef gítarinn skemmdist, fengi hún það ekki bætt. Síðan skildu leiðir og hún kinkaði kolli í kveðjuskyni.

Maðurinn minn taldi að þetta væri allt öðruvísi en hjá Atlantic Airways, þrátt fyrir að ferðin væri á vegum þessa flugfélags. Mér fannst þetta ástand alveg ótækt og sagði við manninn minn að ég ætlaði að ræða aðeins við starfsfólkið sem stóð þarna við afgreiðsluborðið. Á meðan ég gekk þau tíu skref sem voru að afgreiðsluborðinu, ákvað ég að nefna fyrst gítar Eivørar, síðan gítar mansins míns og mjúku töskuna sem hann notaði einu sinni en er nú farinn að nota harða tösku. Hann tók gítarinn áður sem handfarangur en ekki nú. Síðan aftur í gítar Eivørar, og hversu dýrmætur hann er fyrir hana. Að sjálfsögðu nefndi ég ekki að hún hafði skilið hörðu töskuna eftir í Færeyjum.

Í ljós kom, að Atlantic Airways höfðu hert reglur um handfarangur fyrir um mánuði síðan og að starfsfólkið var bara að fylgja þeim reglum sem þeim voru settar. Starfsfólkið var sammála mér í því að hún hefði greinilega fengið að taka gítarinn með sem handfarangur frá Færeyjum, og því væri Atlantic Airways ekki að fylgja eigin reglum. En svona voru reglurnar og því ekkert að gera. Ég brosti í kveðjuskyni og kinkaði kolli til starfsfólksins. Síðan bar þar að öryggisvörð flugvallarins og við þekktumst frá fyrra starfi. Ég vinkaði henni, heilsaði og kvaddi allt í senn.

Það var erfitt að kveðja manninn minn og stutt í tárin. Honum er illa við að kyssast á opinberum stöðum og vildi helst kveðja mig stuttlega. Hann fékk ekki að ráða. Eftir að hafa kvaðst tvisvar kvöddumst við innilega í inngangi flugstöðvarinnar.

Ég var rétt búin að leggja bílnum við vinnuna mína hjá Háskólabíói, þegar maðurinn minn hringdi í mig. “Þau létu Eivøru fá gítarinn aftur!” Hrifningin í rödd hans var greinileg og ég hló af gleði. Hann var á leiðinni út í flugvélina og fannst að ég yrði að fá að vita þetta, þar sem ég ætti líklega einhvern þátt í þessu. Við kvöddumst aftur og ég hugsaði hlýlega til starfsfólksins á flugvellinum og til öryggisvarðarins sem líklega átti sinn þátt í þessu. Nú ætlaði ég að hlusta aftur á flövuna Mannabarn eftir Eivøru.

2007-08-13

Transgender Cyborg

Trans Ísland tekur vonandi þátt í Hinsegin Dögum árið 2008 sem sjálfstætt félag. Í rúmlega eitt og hálft ár hef ég gengið með hugmyndir um hvernig við getum fylgt stefnu Homma og Lesbía, síðustu áratugi í göngunni: Að staðfesta alla fordómana, sýna lífsgleði, frumkvæði og sköpun.

Þeir fordómar sem Transgender fólk mætir oft, er að við breytum líkömum okkar svo mikið að talað er um að við séum með gerfibrjóst, gerfikynfæri, gerfihár, gerfikinnbein, gerfinef, kyngerfi og svo framvegis. Einnig virðist fólk óttast að hægt sé að smitast og verða Transgender.

Þessa fordóma ættum við að staðfesta í næstu göngu, og gera það af sannfæringu og lífsgleði.


Þekkt er tengingin milli Transgender og Cyborg, en þau síðarnefndu koma fyrir í skáldsögum og kvikmyndum, allt frá Frankenstein eftir Mary Shelley, og fram í vísindaskáldsögur seinustu áratuga. Má þar helst nefna Star trek kvikmyndirnar, en í þeim höfðu Borgir ráðist á mannfólkið til að útrýma því. Borg þessi voru lifandi vélmenni sem ætluðu að ná heimsyfirráðum og breyta öllum í lifandi vélmenni. Mannfólkið fékk eftirfarandi orðsendingu: “We are Borg! Resistance is Futile. Prepare to be assimilated.” (is: Við erum Borgir! Andspyrna er gagnslaus. Búið ykkur undir aðlögun! )


Reglan er að Cyborgirnar eru ómenni sem bera ekki virðingu fyrir neinu. Oft eru þær skúrkar eða glæpamenn. Einnig eru til undirgefnar Cyborgir og er þeim þá treystandi fyrir einföldum störfum. Fjallað hefur verið um þetta m.a. á ráðstefnu nýverið í Bandaríkjunum um Félagslegar Rannsóknir. Þar voru meðal annarra nefnd tengslin milli kynþátta og Cyborg myndhverfingarinnar. Einnig voru nefndar hugmyndir um intersex og Cyborg líkamningu. Síðast en ekki síst var fjallað um skáldsögu Angelu Carter: Ástríða hinnar nýju Evu. Titillinn var “’I would rather be a cyborg than a goddess’: The Transgender Cyborg and Embodiment in Angela Carter’s 'The Passion of New Eve'”


Aðrar athuganir á skáldsögum þar sem Cyborg kemur við sögu, virðast sýna að Cyborg er í flestum tilfellum kvenkyns. Þessar athuganir virðast sýna Cyborgina sem póstmódernístíska myndhverfingu fyrir kvenlega undirgefni. Þannig er verið að letja gangrýna umræðu um kynþætti í alþjóðlegum kvikmyndum.


Birting okkar sem Transgender Cyborgir myndi staðfesta alla fordómana og að auki myndum við ýta verulega við umræðu um jafnréttismál kynjanna og kynþátta, ásamt því að ýta við umræðu um jafnrétti fatlaðra.


Mín hugmynd er því að Trans Ísland taki þátt í Gay Pride 2008 og verði Cyborgir. Töluverð vinna hefur þegar verið lögð í að finna hæfilegt grafískt útlit og tillögur að búningum og útliti.


.-. .-.
/'v'\ /'v'\
(/ \) (/ \)
======="="=='=='="="===-----


Megi Ó-Frjálslyndi flokkurinn verða póstmódernístísk myndhverfing fyrir kvenlega undirgefni.