Sýning Listahópsins Maddýar, er sýning sem áhorfandur taka þátt í og ramba inn í hvern heiminn á fætur öðrum. Stundum er eins og áhorfandinn sé að upplifa minningar annars fólks. Aðferðirnar eru áhrifaríkar og gera áhorfendur að þáttakendum sem þurfa að setja sig í spor annars fólks.
Ég upplifði aftur og aftur að sem áhorfandi var ég ein á sviðinu og áhorfandi að eigin sviðssetningu. Viðbrögð annarra áhorfanda eru einnig minnisstæð. Í dimmum kyndiklefa með ýmsum ryðguðum vélum stendur við hlið mér áhugaljósmyndari og mundar myndavélina eins og hún sé að mynda villt dýr í frumskógi rygðaðra röra og vélahluta. “Það er nakinn maður þarna inni. Hann kemur bráðum fram.” Eitt augnablik efaðist ég um hvort hún væri áhorfandi eða leikandi í sýningunni.
Í litlu þvottaherbergi situr ungur maður og segir sögu úr æsku sinni. Þvottasnúrur fullar af myndum frá æsku þessa unga manns. Þegar sögunni lýkur kemur í ljós að konan sem stendur við hlið mér er mamma hans. Hann segir söguna af ótrúlegri sannfæringu. Það er eins og að hann hafi í raun upplifað það sem hann segir frá. Það eina sem fær mig til að efast um söguna, er að ég veit að hún er sviðssett.
Móðirin svarar unga manninum af sömu sannfæringu, þegar hann spyr hvað henni finnist. Veruleikinn er óþægilega fljótandi. Til að grípa í eitthvað fast horfi ég á myndirnar úr æsku unga mannsins. “Þetta er alveg ótrúlega líkt þér” segi ég. “Já, þetta er mynd af mér” segir hann. Ég brosi vandræðalega og það rennur upp fyrir mér að sannleikurinn er oft ótrúlegri en uppspuni. Þegar sannleikurinn er sviðssettur eins og um uppspuna sé að ræða, getur venjulegt fólk verið algerlega sannfærandi.
Listasýningin er frábærlega öðruvísi og ögrandi. Í minningunni er hún eins og draumur annars fólks sem mig dreymdi ekki.
Aðgangur er ókeypis og athugið að mögulegt er að koma og fara að vild.
Síðasta sýning í Austurbæjarbíói í dag klukkan 18:00 til 20:00
Engin ummæli:
Skrifa ummæli