Ræða flutt á fundi TÍ. 1. apríl 2009
Orðræða um Transfólk
Góðu gestir, áheyrendur, vinir, og vinkonur,
það er löngu tímabært að við förum að ræða hvernig við tölum og hugsum um okkur sjálf og hvernig aðrir gera það.
Við getum auðvitað stundað einhverskonar skotgrafahernað, þar sem við ráðumst strax á hvern þann sem talar á niðrandi hátt um transgender fólk. Vi gætum t.d. fordæmt hvernig litríka pressan fjallar um transfólk. Þar er orðræðan eins og orðræðan var um kynvillinga var fyrir fleiri áratugum síðan. Við gætum rætt þetta út frá þeirri staðreynd að ákveðnir fjölmiðlar nota vald orðræðunnar til að lítillækka okkur sem minnihlutahóp. Staðan er þá sú, að aðili með mikil völd beitir sér gegn minnihlutahópnum.
Orðræða okkar verður þá svar okkar gegn valdbeitingunni og sagan hefur kennt okkur að svar við valdbeitingu, er valdbeiting. Í besta falli verður það valdbeiting án ofbeldis eins og Ghandi kenndi heiminum.
Ég held að það sé miklu betra að horfast í augu og ræða um þetta á jafningjagrundvelli og byrja á okkur sjálfum.
Valdbeiting í Orðræðu (Discursive abuse of power)
Það er þekkt meðal minnihlutahópa að þeir nota innbyrðis þau orð sem þau vilja ekki að fólk noti utan þeirra hóps. Afrískir bandaríkjamenn kalla hvern annann NIGGARA á góðlátlegan hátt. Gyðingar segja öðrum gyðingum forherta júðabrandara. Það kemur einngi fyrir í gríni og í gamni að einhver hommin kallar einhverna annan hommann fyirr kynvilling. Í öllum þessum tilfellum er ekki um að ræða valdamikinn aðila sem beitir sér gegn minnihlutahópnum eða gegn einstaklingnum. Þarna er í raun verið að gera valdbeitinguna sýnilega, með því að nota orðið án valdbeitingar.
Sá eða sú sem hefði opinberlega kallað núverandi forseta Bandaríkjanna fyrir niggara eða núverandi forsætisráðherra Íslands fyrir kynvilling eða kallað forsætisráðherra Ísraels fyrir júða, hefði stimplað sig inn í söguna sem kreddumaður, sem fordómamaður, sem þröngsýnismaður og sem ofstækismaður.
Valdbeiting í orðræðu gegn þessum minnihlutum er einfaldlega fordæmd á flestum vestrænum menningarsvæðum. Valdbeiting í orðræðu er hinsvegar ekki fordæmd í sjálfu sér. Þegar um er að ræða minnihlutahópa sem af einhverjum sökum ekki eiga upp á opinbert pallborð, virðist vera viðeigandi að beita þá valdi í orðræðu. Sem dæmi má nefna minnihlutahópana auðmenn og útrásarvíkinga. Á vissum menningarsvæðum eru samkynhneigðir ekki taldir eiga upp á pallborðið og kemur það skýrast fram í valdbeitingu í orðræðu um samkynhneigða.
Falin Valdbeiting í Orðræðu
Á tímum þrælahalds í Bandaríkjunum og þeirrar valdbeitingar sem þrælahald er í raun, þótti sjálfsagt og eðlilegt að kalla fólk “niggara”. Þetta var einfaldlega það orð sem valdastéttin vildi nota um þessháttar fólk. Valdastéttin taldi þetta vera góða og gilda málnotkun. Valdbeitingin í orðræðu var falin með því að gera orðið að ómissandi hluta af tungumálinu. Einnig var valdbeiting svo miklu meiri á öðrum sviðum, t.d. félagslega og réttarlega að fólk varð blint fyrir valdbeitingu í orðræðu.
Svo virðist sem að vissum aðilum þyki sjálfsagt og eðlilegt að kalla fólk kynvillinga, kynskiptinga og klæðskiptinga með þeim rökum að slíkt sé góð og gild málnotkun.
Þannig er valdbeitingin falin bak við góðan ásetning. Röksemdin virðist vera sú, að góður ásetningur hljóti að réttlæta valdbeitinguna. Gallinn við þá röksemd er að góð og gild málnotkun er möguleg án valdbeitingar.
Sem dæmi um góða og gilda málnotkun án niðrandi orðalags, má nefna fyrirspurn háttvirts þingmanns Guðrúnar Ögmundsdóttur dagsett 18. janúar 2007 til háttvirts forsætisráðherra fyrrverandi, Geirs Haarde, ásamt svari hans.
Villingar og skiptingar nútímans
Þegar kemur að orðunum kynvillingur, kynskiptingur og klæðskiptingur, sést töluverður munur á notkun orðanna. Hið svokallaða fjórða ríkisvald er svotil alveg hætt að nota orðið kynvillingur enda þykir það ekki lengur góð latína. Hinsvegar virðist það hafa sérstakt dálæti á orðunum kynskiptingur og klæðskiptingur.
Á bloggi mínu skrifaði ég í janúar 2007 um Umskiptinga Íslenskrar Tungu.
Eftir umfjöllun um orðið hamskipti sem er gott og gilt íslenskt orð, skrifaði ég meðal annars eftirfarandi setningu:
Nafnorðið hamskipti (en: n: metamorphosis, v: metamorphose) er eitt af upprunalegum orðum íslenskrar tungu, en eins og ofannefndar heimildir sýna er orðið hamskiptingur ónauðsynlegt. Vert er að taka eftir að öll orð sem enda á -skiptingur lýsa eiginleikum sem liggja utan þess sem eðlilegt getur talist.
Við notum orðið trans og merkingarlega er það tilvísun enska orðið transgender. Merkingin er alþjóðleg, og orðið er upprunalega latína og merkir yfir eða þverun. Til eru yfir 20 íslensk fyrirtæki í fyrirtækjaskrá íslands sem bera þetta orð í nafni sínu. Einnig má nefna orðið transfitusýra og er þar komið íslenskt efnafræðilegtheiti á sérstakri fitusýru.
Í efnafræðinni eru notuð hugtökin cis og trans sem andstæður. Í alþjóðlegri orðræðu transfólks, er talað um císfólk en það er fólk sem ekki er transfólk. Það er alveg ljóst að orðið trans var hluti af íslenskri tungu áður en transgender fólk tók það til sín.
Íslensk orð um efnið
Hugtakið transgender spannar stóran hóp fólks sem hefur það eitt sameiginlegt að vera í óhefðbundinni stöðu með kyn sitt. Sum þeirra fá aðgerð til leiðréttingar á kyni.
Við Jóna Ingibjörg vorum að ræða á fésbókinni orðanotkun fyrir orðið gender og skyld orð. Ég skrifaði meðal annars eftirfarandi:
Sæl Jóna,
má ég sýna þér litla grein sem ég var að skrifa í gærkvöldi og í nótt, en þar eru notuð orð sem eru náskyld nýyrðinu þínu: kynverund. Ég nota tvö orð yfir gender allt efti því í hvaða merkingu það er. Oriðn eru kyngervi og kynvitund. Kynsemd sá ég hjá landlæknisembættinu.
Hvað finnst þér?
og hún svaraði og skrifaði þetta:
Kyngervi = gender (hvaða kyn við sýnum út á við)
Kynímynd=kynvitund=kynsemd = gender identity (hvaða kyn við samsömum okkur með huglægt/tilfinningalega)
Kynferði = physical gender
og er ég lýsti áhuga mínum á betra orði fyrir gender, skrifaði hún þetta:
Ég hef aldrei verið hrifin af orðinu kyngervi, hér áður var talað um félagsleg kynhlutverk, þ.e.a.s. þá hegðun og hlutverk sem er félagslega áskapað. Við höfum okkar kyn-ferði, sem er líffræðilega kynið. Svo höfum við hið félagslega kyn, það sem sést út á við. Það vantar eitthvað skemmtilegt og ögrandi heiti hér, er sammála því en á meðan er kyngervi einn möguleiki því kyngervi breytast stöðugt.
Kæru áheyrendur, það er alveg ljóst að íslensk tunga er í mikilli þróun á þessu sviði. Það skiptir öllu máli hvernig hvert okkar notar málið. Í þessu sambandi langar mig að minna á nýlega auglýsingu þar sem ung stúlka les ljóð Þórarins Eldjárns:
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´ og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.
Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn nema ég og þú.
Góðu vinir og vinkonur: það gera vonandi fleiri en bara ég og þú.