2006-03-12

Útúrsnúningar Nýju Fréttastöðvarinnar.

I viðtali mínu við fréttamann N.F. Þann 10 mars. 2006, sagði ég frá persónulegri reynslu minni af fordómum gagnvart minni egin persónu í þá 6 mánuði sem ég hef dvalist hér og sárafáir hafa vitað að ég hef fengið leiðréttingu á kyni.

Ritstjórn N.F. snéri út úr orðum mínum og túlkaði þau eins og þau hefðu sama vægi og orð bandarísks sagnfræðings að nafni Susan Stryker um mismunun og fordóma i BNA gagnvart fólki sem er opinskátt um sína kynfortíð.

Það ætti að vera öllum algerlega ljóst, einnig ritstjórn N.F., að þetta eru ummæli um tvær mög ólíkar hliðar á sama máli. Engu að síður reyndi ritstjórn N.F. að láta líta svo út að við værum ósammála um mismunun og fordóma í garð fólks með kynfortíð.

Því skal slegið hérmeð fast, að við erum mjög sammála um þessa hluti og það er enginn ástæða til að sá efa um gildi rannsókna hennar á þessum málum.

Einnig vil ég koma því á framfæri, að ég tel að mjög sé brotið á rétti fólks í okkar hópi bæði hvað varðar vernd á persónuupplýsingum, mannréttindi, og aðgagn að opinberri þjónustu.

Ég tel því að N.F. hafi brugðist sem fjölmiðill, þegar snúið er út úr orðum mínum með því að setja þau inn í allt annað samheingi en þau voru sögð í. Það er í lagi að gera þetta í gríni, en þetta var ekkert grín.

2006-03-09

Susan Stryker

Fyrir um 10 árum síðan sótti ég 2 ráðstefnur í Englandi um pólítísk málefni TS fólks. Þar voru meðal annarra englendingarnir Stephen Whittle og Christine Burns. Einnig var þar bandarísk kona og nafni hennar gleymdi ég þegar í stað. Það sem hún sagði og myndirnar sem hún sýndi brenndu sig hinsvegar inn í huga minn. Þetta voru myndirnar frá Stonewall uppþotunum. Það ótrúlega var, að þarna kom fram raunveruleg saga sem hún ein sagði. Ég fann til verulegrar auðmýktar gagnvart þeirri staðreynd að þessi kona sýndi raunveruleikann frá sjónarhorni sem öðrum hafði alls ekki hugkvæmst.

Í greininni að ofan segir hún að þó að mikið hafi gerst á síðasta áratug, er mikil vinna framundan. “Það hefur aldrei verið ráðin TG manneskja til að kenna “QUEER” fræði sérstaklega á Háskólastigi,” sagði hún. Það væri svona svipað og að hafa deild í kvennafræðum án nokkurra kvenna. Háskólarnir þurfa að horfast í augu við vandamálið og ráða TG prófessora.

Á föstudag kl 12:00 heldur Susan Stryker fyrirlestur við Háskóla Íslands. Hún hefur framar öðrum unnið að málefnum sem eru utan daglegrar umræðu. Þeir sem vilja fá ógleymanlegan fyrirlestur um Stonewall uppþotin, mæti á föstudag.

2006-03-07

Deja vu: Endlösung

Einhverskonar Deja vu var það að lesa blaðagreinar um pyndingar og morð á tveimur manneskjum í Evrópu. Þessar tvær manneskjur áttu það sameignilegt að tilheyra minnihlutahópum þeim sem nasistar reyndu að eyða. Þessir minnihlutahópar voru meðal annarra Gyðingar og fólk með TS heilkenni sem á íslensku kallast orði er rímar við orðin kynvillingar og vitleysingar. Það sem ég vill fjalla sérstaklega um hér er ekki dómur yfir böðlunum heldur viðbrögð þjóðfélaga í heild við þessum atburðum.

Sagan hefur kennt okkur að þjóðfélög mega ekki bregðast minnihlutahópum eins og gerðist í ofsóknunum á tímum nasismans á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar.

Fyrra málið sem ég ætla að taka fyrir í þessum pistli, fjallar um pyndingar á ungum manni er var gyðingur. Hann fannst illa brenndur, handjárnaður og nakinn þann 13. febrúar 2006 og lést skömmu síðar á leið á sjúkrahús. Honum hafði verið rænt þann 21. janúar 2006 og höfðu böðlar hans brennt hann um allann líkamann. Fjölmiðlar um allann heim hafa keppst við at benda á að ekki sé staðfest að þessi atburður sé tengdur gyðingahatri.

Um þetta skrifar m.a. Fréttablaðið 27. febrúar 2006 á forsíðu: “Tugir þúsunda fylktu liði um götur Parísar í gær til ðess að mótmæla gyðingahatri ...” Óhugnanlegt morð í París skrifaði fréttavefur fjölmiðlafræðinema og BBC skrifar um Anti Semitic Crime á franskan vef sinn. Stjórnmálamenn tóku þátt í mótmælunum gegn gyðingahatri, ráðherrar frösku ríkisstjórnarinnar héldu ræður og Philippe Douste -Blazy sagði að hver og einn á rétt á að lifa með reisn óháð trúarbrögðum.

Seinna málið sem fjallar um árás og morð á heimilislausri konu með TS heilkenni. Böðlarnir voru hópur af 10 til 16 ára strákum frá barnaverndarstofnun kaþólsku kirkjunnar en er fjármögnuð af ríkinu. Árásin hófst 19. febrúar þegar hópurinn kom inn í byggingu þar sem hún hafðist við. Þeir bundu hana og kefluðu börðu hana spörkuðu köstuðu í hana grjóti, börðu hana með bareflum, brenndu hana með sígarettum og stungu spýtum upp í endaþarm hennar. Síðan hentu þeir henni í gryfju með djúpu vatni til að dylja glæpinn. Í umfjöllun portúgalskra fjölmiðla 23. og 24. febrúar um þetta mál var henni lýst sem heimilislausri vændiskonu og eiturlyfjaneytanda, HIV smituð og klæðskiptingur og böðlum hennar sem börnum undir lögaldri og að einn þeirra hefði verið misnotaður af barnaníðingi.

Einhverjir stjórnmálamenn komu með persónulegar yfirlýsingar um málið. Margir fjölmiðlar birtu efni frá greinarhöfundum sem þekktir eru fyrir andstöðu gegn jafnréttisbaráttu LGBT-samtaka i Portúgal. Í greinunum var lögð áhersla á að ekki hefði verið um hatursmorð að ræða og að árásin hefði ekkert að gera með TS heilkenni hennar.

Þessi tvö mál eru að flestu leyti lík, einnig að því leyti að átök eru í þjóðfélaginu um afstöðu til glæpsins og hvort fórnarlömbin eigi einhverja sök á þessu sjálf. Einmitt þessi mál virka eins og gegnumlýsing á hugarfari þessara þjóðfélaga. Frakkar eru tilbúnir til að verja jafn sterkan minnihlutahóp og gyðingar eru, en portúgalar vilja ekki verja minnihlutahóp eins og TS fólk.

Spurningin er hvort við erum að gleyma einhverju sem við ættum að hafa lært af endlösung.